Finnska fjármálaeftirlitið getur lítið aðhafst í því að banki sem heyrir undir það fór á svig við tilmæli Evrópska seðlabankans um arðgreiðslur, að því er fram kemur í frétt Bloomberg.

Alandsbanken, sem lánað hefur til íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja, upplýsti á föstudaginn að hann muni greiða út arð sem er fjórum sinnum hærri en hámarkið sem Evrópski seðlabankinn miðar við. Bankinn fékk ekki leyfi frá finnska fjármálaeftirlitinu fyrir arðgreiðslunni en Jyri Helenius, sem fer fyrir eftirliti með bönkum í Finnlandi, segir að það sé lítið hægt að gera í málinu. „Við ætlumst til að bankar fari eftir tilmælunum jafnvel þótt þau séu ekki lagalega bindandi,“ segir hann.

Þegar kórónakreppan skall á heimsbyggðinni voru viðbrögð eftirlitsstofnana víða um heim að leggja tímabundið bann við arðgreiðslum eða gefa út tilmæli um að fresta þeim. Seðlabankinn gaf íslenskum bönkum slík tilmæli.

Í síðastliðnum mánuði aflétti Seðlabanki Evrópu arðgreiðslubanninu. Bankar hafa þó ekki frjálsar hendur í þeim efnum. Hámarksarðgreiðslur til hluthafa á árinu 2021 mega jafngilda 15 prósentum af samanlögðum hagnaði áranna 2019 og 2020 eða sem nemur 0,2 prósentum af áhættuvegnum eignum, en hvort sem lægra er ræður því hver arðgreiðslan má vera að hámarki. Horft er til þess að tilmælin verði við lýði næstu níu mánuði.

Greiðir út ríflegan arð eftir met ár í rekstri

Alandsbanken, sem er of lítill til að heyra undir eftirlit Seðlabanka Evrópu, hyggst greiða út til hluthafa 59 prósent af arði ársins 2019 í ljósi þess að það ár var afkoman afburðagóð. Við þau tíðindi hækkuðu hlutabréf bankans um 20 prósent.

Tilmæli Seðlabanka Evrópu eru strangari en í Bretlandi, Sviss og Bandaríkjunum og hefur það verið gagnrýnt af ýmsum í fjármálakerfinu.

Greinendur hjá Inderes segja að ákvörðun Alandsbankan sé táknræn þrátt fyrir hve lítill bankinn sé. Þeir telja að fleiri minni lánveitendur geti fært sömu rök fyrir auknum arðgreiðslum en reikna engu að síður með að aðrir bankar muni fylgja tilmælum Seðlabanka Evrópu.