Forsvarsmenn kísilvers PCC á Bakka við Húsavík hafa náð samkomulagi við verktakann sem byggði verksmiðjuna, þýska fyrirtækið SMS, um að síðarnefnda fyrirtækið greiði því fyrrnefnda um einn milljarð króna. Fyrirtækin hafa um nokkurt skeið deilt um tafabætur vegna framkvæmdanna.

Gengið var frá samkomulagi um eingreiðsluna fyrr í mánuðinum.

Eins og fram hefur komið í Markaðinum spratt deila PCC og SMS upp vegna seinkunar á afhendingu verksmiðjunnar. Upphaflega stóð til að verksmiðjan yrði afhent PCC síðla árs 2017, en það tafðist og var hún ekki formlega afhent fyrr en í október í fyrra. Þess má geta að kísil­verið var gangsett í maí árið 2018.

Fram kom í Viðskiptablaðinu fyrr á árinu að vegna tafanna hefði PCC tekið yfir 9,4 milljóna evra bankaábyrgð, sem SMS hafði lagt fram vegna framkvæmdanna. Þýski verktakinn mótmælti því og gerði mótkröfu á PCC upp á 44 milljónir evra. Haft var eftir Rúnari Sigurpálssyni, forstjóra PCC á Bakka á þeim tíma, að viðræður vegna málsins væru í gangi. Fyrirtækin vildu síður að deilan rataði fyrir dómstóla.

Sem kunnugt er gengu stjórnendur kísilversins frá samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu þess við lánveitendur og hluthafa, sem eru meðal annars íslenskir lífeyrissjóðir og Íslandsbanki í gegnum samlagshlutafélagið Bakka­stakk, í mars síðastliðnum.

Samkvæmt samkomulaginu er kísilverinu veittur frestur á greiðslu vaxta og afborgana og þá mun þýska fyrirtækið PCC SE, sem á 86,5 prósenta hlut á móti 13,5 prósenta hlut Bakkastakks, leggja fram 40 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 5,6 milljarða króna, í reksturinn í formi hluthafaláns, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Miklar tafir og erfiðar aðstæður á hrávörumörkuðum hafa einkennt starfsemi kísilversins frá gangsetningu á vormánuðum ársins 2018. Þá hafa vandræði í hreinsivirki verksmiðjunnar valdið því að slökkva hefur þurft á ljósbogaofnum.