Andri Már Ingólfsson, fyrrverandi aðaleigandi Primera Air sem var tekið til gjaldþrotaskipta síðasta haust, reiddi fram tæplega 200 milljónir króna í reiðufé til þrotabús flugfélagsins gegn því að fallið yrði frá málsóknum á hendur honum, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Til viðbótar samþykkti Andri Már að falla frá þeim kröfum sem hann hafði lýst í þrotabúið, eins og áður hefur komið fram, en kröfur hans og félaga á hans vegum, þar á meðal félags í eigu dönsku ferðaskrifstofunnar Bravo Tours, námu samanlagt ríflega tveimur milljörðum króna.

Greint var frá því á vef Viðskiptablaðsins í síðasta mánuði að samkomulag hefði tekist á milli Andra Más og þrotabús Primera Air á Íslandi, sem hæstaréttarlögmaðurinn Eiríkur Elís Þorláksson stýrir, um að búið félli frá þeim riftunarmálum sem það hugðist höfða á hendur Andra Má en ekki hefur áður verið upplýst um eingreiðsluna sem Andri Már þurfti að inna af hendi til búsins.

Andri Már, sem var næststærsti kröfuhafi þrotabúsins á eftir Arion banka, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í kjölfar samkomulagsins að frá sínum bæjardyrum séð væri málinu lokið. Hann hefði tapað gríðarlegum fjárhæðum á gjaldþroti Primera Air.

„Það er auðvitað mikil eftirsjá að svona skyldi fara fyrir félagi sem hafði verið í góðum rekstri í fjórtán ár,“ sagði hann.

Rekstur Prim­era Air og erlendra dótturfélaga stöðvaðist sem kunnugt er í október í fyrra þegar félögin voru tekin til gjaldþrotaskipta. Lýstar kröfur í búið nema rúmlega 10 milljörðum króna og af þeim nema kröfur frá Arion banka samtals um 4,8 milljörðum króna.

Bankinn þurfti að færa niður tæplega þrjá milljarða króna í ábyrgðum og lánveitingum vegna gjaldþrotsins.

Fram kom í skýrslu skiptastjóra sem var lögð fram á skiptafundi þrotabús flugfélagsins í febrúar síðastliðnum og Markaðurinn hefur undir höndum að rannsóknir skiptastjórans hefðu „leitt í ljós að mögulegt sé að fyrirsvarsmenn félagsins hafi bakað því tjón“ í að minnsta kosti tveimur tilvika.

Auk þess var tekið fram að skiptastjórinn hefði það til skoðunar „hvernig staðið var að reikningsskilum þrotamannsins að öðru leyti“.

Í skýrslunni sagði jafnframt að athugun skiptastjóra á reikningsskilum flugfélagsins kynni að leiða til þess að þrotabúið gæti sótt frekari fjárkröfur á hendur þeim sem báru ábyrgð á reikningsskilunum. Endurskoðendur Primera Air voru frá ráðgjafarfyrirtækinu Deloitte.

Draga ársreikninga í efa

Í umfjöllun Markaðarins í nóvember kom fram að endurskoðendur sem höfðu rýnt í ársreikninga félaga innan Primera-samstæðunnar fyrir 2017 teldu vafa leika á því að þeir væru í samræmi við lög, reglur og góða endurskoðunarvenju. Töldu þeir til að mynda vandséð að víkjandi lán sem Prim­era Air var veitt frá tengdum aðila geti talist til eigin fjár félagsins en án lánsins hefði eigið fé þess verið neikvætt um 16,3 milljónir evra, jafnvirði 2,2 milljarða króna, í árslok 2017.

Rekstur Prim­era Air og erlendra dótturfélaga stöðvaðist sem kunnugt er í október í fyrra þegar félögin voru tekin til gjaldþrotaskipta.

Þá sögðu þeir óvíst hvort félaginu hafi verið heimilt að innleysa 13,3 milljóna evra söluhagnað á árinu 2017 vegna endursölu á Boeing-flugvélum sem voru enn í smíðum og yrðu afhentar í apríl árið 2019.Andri Már hafnaði því að ranglega hefði verið staðið að gerð ársreikninga félaga innan Primera-samstæðunnar.

Eins og Markaðurinn hefur greint frá lýsti skiptastjóri þrotabúsins yfir riftun á tveimur ráðstöfunum Primera Air upp á samtals um 520 milljónir króna í lok nóvember í fyrra. Þeim riftunum var mótmælt en fram kom í skýrslu skiptastjórans frá því í febrúar að hann hefði í hyggju að höfða riftunarmál, meðal annars á hendur Andra Má, og láta reyna á endurheimt þeirra verðmæta fyrir dómstólum. Nú er hins vegar ljóst að ekkert verður af málsóknum gegn fyrrverandi aðaleiganda ferðaþjónustusamstæðunnar.