Borgun hefur óskað eftir heimild Fjármálaeftirlits Seðlabankans til að lækka hlutafé kortafyrirtækisins með greiðslu til fráfarandi hluthafa að fjárhæð rúmlega 3,5 milljarða króna. Tillaga um hlutafjárlækkunina, sem var samþykkt á hluthafafundi Borgunar í lok síðasta mánaðar, felur í sér afhendingu allra eignarhluta í dótturfélaginu Borgun-VS ehf. en það heldur utan um forgangshlutabréf í Visa Inc. sem Borgun eignaðist þegar fyrirtækið seldi hlut inn í Visa Europe 2016.

Fráfarandi stærstu hluthafar Borgunar eru Íslandsbanki með 63,5 prósenta hlut og Eignarhaldsfélagið Borgun, sem er í eigu meðal annars Stálskipa og Einars Sveinssonar fjárfestis, með 32,4 prósenta hlut.

Fram kemur í skýrslu stjórnar Borgunar vegna tillögunnar, sem Markaðurinn hefur undir höndum, að samhliða hlutafjárlækkuninni eigi að koma inn nýtt hlutafé með inngreiðslu reiðufjár að fjárhæð 8 milljóna evra, jafnvirði um 1.250 milljóna króna. Verða 5 milljónir evra greiddar samtímis framkvæmd hlutafjárlækkunarinnar og síðan 3 milljónir evra sem komi til greiðslu innan næstu tólf mánaða.

Það er alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækið Salt Pay sem leggur Borgun til hið nýja hlutafé en gengið var formlega frá kaupum félagsins á tæplega 96 prósenta hlut í Borgun í gær. Þegar kaupsamningur var undirritaður þann 11. mars síðastliðinn átti kaupverðið að vera 35 milljónir evra, jafnvirði 5,5 milljörðum króna á núverandi gengi. Samkvæmt heimildum Markaðarins hefur verðið hins vegar tekið breytingum og er nokkuð lægra en áður var áætlað. Í kaupsamkomulaginu var kveðið á um að hlutabréfin í Visa Inc. myndu ekki fylgja með en í ársreikningi Borgunar voru þau bókfærð á rúmlega 3,1 milljarð í árslok 2019.

Markaðsaðstæður á árinu hafa haft neikvæð áhrif á rekstur Borgunar. Þannig kemur fram í skýrslu stjórnar að rekstrartap á fyrstu fimm mánuðum ársins hafi numið 642 milljónum sem var töluvert meira tap en gert var ráð fyrir í áætlunum. Helstu ástæðurnar eru efnahagsáhrifin af kórónaveirufaraldrinum, lægra vaxtastig og minni notkun á virðisaukandi þjónustu.

Stjórnin segir að félagið hafi brugðist við þessu með hertum lánareglum til að minnka lánsáhættu og losa lausafé. Þá hafi félagið gert samning um lánalínu við viðskiptabanka sinn til þess að tryggja nægt aðgengi að lausafé. Eigið fé Borgunar nam 6,7 milljörðum í árslok 2019 en í lok maí hafði það lækkað í 6,46 milljarða. Eiginfjárhlutfall félagsins hefur lækkað talsvert frá árslokum – þá var 20,5 prósent – og var 14,69 prósent í lok maí. Að meðtöldu sjálfsmati á eiginfjárþörf eru lágmarkskröfur um eiginfjárhlutfall Borgunar 15,3 prósent.

„Með því að lækka hlutafé með útgreiðslu eignarhluta í Visa Inc. og hækka hlutafé með inngreiðslu reiðufjár er gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall hækki þar sem eignarhlutur í Visa Inc. er ekki tekin með í eiginfjárútreikninga,“ að því er segir í skýrslu stjórnarinnar.