Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir að vinna ætti ötullega að því að koma hlutunum í það horf að MSCI vísitölufyrirtækið taki Ísland inn í sitt mengi. „Það er mikilvægt skref sem hangir á löggjöf, reglum Seðlabankans og okkur hjá Nasdaq,“ segir hann í samtali við Markaðinn.

Vonir stóðu til að MSCI-vísitölufyrirtækið myndi flokka íslenska hlutabréfamarkaðinn sem vaxtarmarkað (e. frontier) en við lok síðasta mánaðar kom í ljós að það yrði ekki. Ísland verður áfram á athugunarlista.

Magnús segir að vísitölumengi MSCI sé endurskoðað árlega. Næsta endurskoðun verði í júní. Til þess að MSCI samþykki Ísland næsta sumar verði að vinna hratt og vel og „það þarf að vera ríkur vilji til að breyta“.

Rík tilkynningarskylda við gjaldeyrisviðskipti

Forsvarsmenn Kauphallarinnar funduðu með MSCI eftir að fyrirtækið upplýsti um ákvörðun sína. „Fundurinn gekk ágætlega,“ segir hann og nefnir að MSCI gefi ekki meira út opinberlega um ákvarðanir sínar um vísitölur en það sem fram komi í tilkynningu. „Ég skynjaði það á fundinum að mögulega sé rík tilkynningarskylda í tengslum við gjaldeyrisviðskipti veigamesti þátturinn,“ segir hann og nefnir að því fylgi aukinn kostnaður við að eiga viðskipti á fjármálamörkuðum. Slíkt hamli erlendri fjárfestingu á lítinn markað.

MSCI nefndi í rökstuðningi sínum meðal annars að fjármagnshöft hefðu nýlega verið afnumin. Magnús bendir á að þessi ríka tilkynningarskylda rími illa við sterka stöðu þjóðarbúsins og að það sé ólíklegt að gripið verði til hafta á ný í bráð.

Alþingi þarf að innleiða reglugerð svo halda megi áætlun

Hann segir að MSCI kalli eftir því að stærri alþjóðlegir bankar og verðbréfafyrirtæki gerist aðilar að markaðnum. „Við erum að vinna í því,“ segir Magnús og nefnir að unnið sé að betrumbótum hjá Verðbréfamiðstöðinni sem muni hjálpa til við það. Alþingi þurfi að innleiða evrópska reglugerð um verðbréfamiðstöðvar fyrir miðjan febrúar svo Verðbréfamiðstöðin geti haldið tímaáætlun.