Sprotafyrirtækið Greenvolt, sem þróar rafhlöður morgundagsins með nanó­tækni, hlaut 1,9 milljóna evra styrk, jafnvirði um 300 milljóna króna, frá Evrópusambandinu (ESB) til að þróa tæknina áfram, vegna þess hve öflug og umhverfisvæn hún er. Í hönd fer vinna svo hægt verði að bjóða nanóefni til sölu í umhverfisvænar rafhlöður eftir um tvö ár. Þetta segir Ármann Kojic, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, í samtali við Markaðinn.

„Við komumst í gegnum mikla síu hjá Evrópusambandinu. Þetta er því mikil viðurkenning á okkar vinnu,“ segir hann.

„Við komumst í gegnum mikla síu hjá Evrópusambandinu.“

Hægt er að hlaða nanórafhlöður hraðar en hefðbundnar rafhlöður, þær geta geymt meiri orku og eru úr umhverfisvænum efnum.

Ármann segir að ESB sé með markmið í umhverfismálum, sem lúti til að mynda að endurnýjanlegri orku og minni sóun. Til að auka líkur á að framtíðarsýnin rætist, leggi ESB allt að 300 milljónir evra í þróun umhverfisvænnar tækni. Verkefnið gangi undir nafninu „Green Deal“.

Fram kemur í erlendum fjölmiðlum að hvert fyrirtæki gat fengið allt að 2,5 milljóna evra styrk og 15 milljóna evra fjárfestingu í hlutafé. 64 fyrirtæki fengu fé í þessari úthlutun. ORF Líftækni var í þeim hópi og fékk 2,5 milljóna evra styrk.

Samhliða áframhaldandi þróun tækninnar hyggst Greenvolt nýta fjármunina til að koma upp aðstöðu hér á landi til að framleiða nanóefni fyrir rafhlöður. Ármann segir að hugmyndin sé að bjóða öðrum nýsköpunarfyrirtækjum sem vinni með nanótækni að nýta aðstöðuna líka.

Bill Gates, stofnandi Microsoft, lagði fé í fjárfestingasjóð sem á hlut í Greenvolt.

„Fyrir einu og hálfu ári fengum við styrk frá Tækniþróunarsjóði og Rannís til að þróa nanórafhlöður en sú vinna nýttist okkur til að þróa áður óþekktar efnasamsetningar. Við gátum nýtt hluta af þeim niðurstöðum og kynnt þær fyrir Evrópusambandinu. Þannig gátum við þróað vöruna nógu langt til að Evrópusambandið gæti myndað sér skoðun á með hvaða hætti tæknin gæti nýst Evrópu og hvernig væri best að þróa hana áfram. Við komumst í gegnum þá síu og nú munum við nýta fjármagnið og vinna eftir tveggja ára áætlun,“ segir hann.

Sýna að tæknin virki

Styrkurinn verður, að sögn Ármanns, nýttur til að þróa ýmsar útgáfur af efnum fyrir rafhlöður og sýna fram á að tæknin virki vel. „Evrópa býr að mikilli endurnýjanlegri orku, en vandinn er að ekki tekst að fanga alla orkuna í rafhlöður. Það má hlaða nanórafhlöður mun hraðar en hefðbundnar og því mun tæknin nýtast vel á því sviði,“ segir hann og bætir því við að tæknin sé hagkvæm, sem auki líkurnar á að henni verði tekið fagnandi á markaðnum.

Að sögn Ármanns eru rafhlöðurnar þannig úr garði gerðar að þær nota sömu grunnuppskriftir og eru þekktar í venjulegum batteríum en þær eru betrumbættar með nanóefnum. „Við erum í raun ekki að búa til rafhlöður frá grunni heldur skipta út þeim grunnefnum sem eru notuð í rafhlöður með okkar sérhæfða nanóefni. Þá er hægt að breyta reglulegum rafhlöðum í nanórafhlöður og hægt að nýta núverandi rafhlöðuverksmiðjur til að framleiða þær, einungis þarf að nýta okkar sérhæfðu efni. Það getur flýtt fyrir því að tæknin nái fótfestu. Það er lykilatriði fyrir okkur,“ segir hann.

Iceland Venture Studio, sem Bala Kamallakharan stýrir, er á meðal fjárfesta í Greenvolt.
Fréttablaðið/GVA

Village Global í hluthafahópnum

Á meðal hluthafa í Greenvolt er fjárfestingarsjóðurinn Village Global sem meðal annars er fjármagnaður af Bill Gates, stofnanda Microsoft; Jeff Bezos, stofnanda Amazon, Reid Hoffmann, stofnanda Link­edIn; Evan Williams, stofnanda Twitter, og fleirum. Sjóðurinn fjárfestir í fyrirtækjum sem eru að stíga sín fyrstu skref.

Iceland Venture Studio, sem Bala Kamallakharan stýrir, er einnig á meðal fjárfesta. Aðrir í hluthafahópnum fyrir utan starfsmenn Greenvolt eru englafjárfestar, íslenskir og erlendir, auk lögmannsstofu sem sérhæfir sig í einkaleyfum.