Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnisstjóri verðlagseftirlits hjá ASÍ, segir það algengt í verðlagseftirliti sambandsins að verðmerkingum í verslunum séu víða ábótavant og að ASÍ hafi fengið mikið af ábendingum frá fólki í samfélaginu sem kvarti undan misvísandi verðum.

„Það er allt of algengt að verðmerkingar vanti á vörur og þjónustu. Þá virðist það vera að færast í aukana að fyrirtæki telja sig ekki þurfa að verðmerkja á staðnum heldur vísa í verð á vefsíðu fyrirtækisins þannig að neytandinn þarf að leita sér verðupplýsinga á netinu fyrir vöru eða þjónustu í verslun sem er auðvitað ekki í lagi,“ segir Auður.

Ábendingar frá viðskiptavinum Nettó hafa til að mynda borist um að bækur sem seldar eru í matvöruversluninni séu ekki verðmerktar. Viðskiptavinum sé einfaldlega bent á að skanna QR-kóða í gegnum síma sinn sem fer með þá á vefsíðu þar sem verðin eru svo sýnileg.

Samkvæmt 17. grein laga um viðskiptahætti og markaðssetningu er fyrirtækjum skylt að merkja vörur sínar og þjónustu með verði eða sýna það á svo áberandi hátt á sölustaðnum að auðvelt sé fyrir neytendur að sjá það.

Auður segir það vera grundvallarréttur neytenda að vörur og þjónusta séu verðmerktar skýrt og skilmerkilega á þeim stað sem varan eða þjónustan er.

„Neytendur eiga ekki að þurfa að leggja í einhverja vinnu við að afla sér verðupplýsinga á netinu. Verðmerkingar eru stórt hagsmunamál fyrir neytendur en skortur á verðmerkingum slævir bæði verðvitund neytenda og grefur undan samkeppni,“ segir Auður.

Verðlagseftirlit ASÍ segir skort á verðmerkingum slæva verðvitund neytenda og grafa undan samkeppni.
Fréttablaðið/Ernir

Kvartanir viðskiptavina hafa verið áberandi á Facebook-síðunni Vertu á verði þar sem neytendur benda á vafasama viðskiptahætti. Einn notandi bendir á sófa sem var til sölu í Húsgagnahöllinni fyrir tæpar 350 þúsund krónur í byrjun nóvember. Upprunaverð sófans hafði svo hækkað um 50 þúsund krónur þegar Black Friday tilboðsvika fyrirtækisins fór í gang. Var sófinn þá til sölu á tilboðsverðinu 319.992 krónur.

Egill Fannar Reynisson, eigandi Húsgagnahallarinnar, segir í samtali við Fréttablaðið að um mannleg mistök sé að ræða. „Sófinn kemur inn og er í nokkra daga í búðinni áður en hann er birtur á vefnum hjá okkur. Það átti eftir að fara yfir verðlagninguna á sófanum og hann var bara vitlaust verðlagður,“ segir Egill og bætir við að sófinn hafi aldrei verið seldur á 349.990 krónur en skyldi einhver hafa viljað kaupa hann á því verði fyrir verðbreytingu hefði það staðið til boða.

Matthildur Sveinsdóttir hjá Neytendastofu segir að ný reglugerð í tengslum við þessi málefni verði bráðum innleidd á Íslandi. „Evrópusambandið er búið að samþykkja nýja tilskipun um reglur varðandi verðlækkun. Samkvæmt þeim reglum þá þarf hærra verðið sem strikað er yfir á tilboðsdögum að vera lægsta verð sem varan hefur verið seld á á seinasta 30 daga tímabili.“