Græn­lendingar hafa á­kveðið að snúa lofts­lags­vánni sér í hag og hyggjast koma því vatni sem bráðnar undan Græn­lands­jökli við hlýnun jarðar í sölu. Þannig vilja þeir bæði græða á vandanum en einnig reyna að leysa annað vandamál sem mann­kynið hefur lengi glímt við; skort á hreinu vatni.


„Við vitum auð­vitað að það eru lofts­lags­breytingarnar sem bræða jökulinn en þetta mun einnig verða til þess að skortur á vatni verður minni í heiminum,“ er haft eftir orku­mála­ráð­herra Græn­lands, Jess Svane, í þýska fjöl­miðlinum Salz­burg 24 í dag.


Hann segir ríkis­stjórnina hafa séð færi á því að breyta þeim vand­ræðum sem skapast við lofts­lags­breytingar í sölu­væna vöru sem er skortur á í heiminum. Í dag hafa níu fyrir­tæki í landinu leyfi til að flytja út vatn en Svane segist vilja færa út kvíarnar og hefja sölu á græn­lensku jökul­vatni um allan heim.


Sex­tán leyfi til vinnslu vatns úr jöklinum verða nú sett í út­boð og verður það fyrir­tækjanna sem fá leyfin að á­kveða hvert þau vilja selja vatnið.


Ný­lega upp­götvuðu vísinda­menn að Græn­lands­jökull, sem þekur um 80% af yfir­borði Græn­lands, bráðnar mun hraðar en gert var ráð fyrir. Sam­kvæmt ný­legri rann­sókn sem var birt í vísinda­tíma­ritinu Nature hafa 3,8 billjón tonn af ís bráðnað úr jöklinum síðan árið 1992.