„Við höfum alltaf gert hvað við getum til að hafa starfsemina sem umhverfisvænsta. Árið 2012 settum við til dæmis upp endurvinnslustöð fyrir malbik en þá hafði enginn áhuga á grænu malbiki og má segja að við vorum of langt á undan okkar samtíð. Nýja stöðin sem við byggðum svo upp að Esjumelum 2020 var reist með það fyrir augum að nota metan við framleiðsluna. Ég hafði áður séð mynd í fjölmiðlum þar sem verið var að brenna umframmagn sem var ekki hægt að koma í vinnu. Þá vissi ég strax að metan sem orkugjafi væri eitthvað sem þyrfti að koma inn í framleiðsluferli Malbikstöðvarinnar. Þessi tímamótasamningur við Sorpu gerir okkur kleift að nota dýrmætu orku til að framleiða og leggja áfram hágæða malbik – grænasta malbikið á landinu,“ segir Vilhjálmur Þór Matthíasson, framkvæmdastjóri Malbikstöðvarinnar.

Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU, segir samninginn afar mikilvægan fyrir byggðasamlagið. „GAJA er stærsta loftslagsverkefni sem ráðist hefur verið í á höfuðborgarsvæðinu síðan heitt vatn leysti olíu og kol af hólmi við húshitun. Innleiðing hringrásarhagkerfisins er á fullri ferð hjá SORPU og er þessi samningur hluti af því. Föngun og nýting metans frá lífrænum úrgangi á urðunarstað og í GAJU er gríðarlega mikilvægt loftslagsmál. Metan er 80 sinnum skaðlegra en koltvísýringur þegar það sleppur út í andrúmsloftið og því afar mikilvægt að vinna lífrænan úrgang með réttum hætti í GAJU til að koma í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda. Nýting metansins felur svo í sér enn aukinn ávinning.“

Eftirspurn eftir metani frá SORPU hefur að undanförnu aukist verulega.