Tekjur Marels drógust saman um 8 prósent á milli ára og námu 287 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi. „Afkoma fjórðungsins var engu að síður góð,“ segir Landsbankinn í viðbrögðum við uppgjörinu sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Hagnaður Marels á þriðja ársfjórðungi lækkaði í 29,4 milljónir evra úr 33,4 milljónum evra á sama tíma fyrri ári. EBIT-hlutfallið (hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta) var 15,4 prósent og hefur að sögn Landsbankans einungis þrisvar í sögu Marels verið jafnt hátt.

Góð afkoma á ársfjórðungnum byggir á lágum kostnaði og sölu vara og þjónustu með háa framlegð. Þetta er þó fjórði fjórðungurinn í röð sem tekjur lækka milli ára, segir í viðbrögðum bankans.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, segir að stjórnendur séu ánægðir með afkomuna á tímabilinu og bjartsýnir á framtíðarhorfur félagsins. „Mótteknar pantanir á þriðja ársfjórðungi og á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 eru á pari við sömu tímabil á síðasta ári. Eftirspurn er mikil eftir aukinni sjálfvirkni og sveigjanleika í framleiðslu á matvælamarkaði til að mæta eftirspurn sem sveiflast milli smásöluverslunar og veitingageirans,“ segir hann í tilkynningu.

Landsbankinn segir að pantanir séu lágar annan fjórðunginn í röð „en við gerum ráð fyrir því að sterkar pantanir frá því í byrjun árs skili sér á fjórða ársfjórðungi.“

Í viðbrögðum bankans segir að hægt sé að skipta tekjum Marels í tvennt: Annars vegar vörusölu (e. equipment sales) og þjónustu og varahlutasölu (e. aftermarket sales). Sala á vörum hefur samkvæmt útreikningum greinenda Landsbankans lækkað um 13 prósent á milli ára á fyrstu níu mánuðum ársins, en hlutur þess er um 60 prósent af sölunni. Þjónusta og varahlutasala, sem hefur verið um 40 af tekjum á fyrstu níu mánuðum ársins, hafi eingöngu aukist um fjögur prósent á tímabilinu. „Helst eru það þjónustutekjur (e. service revenue) sem hafa gefið eftir í COVID-19 faraldrinum vegna ferðatakmarkana, en sala á varahlutum hefur bætt það upp.“