„Við sjáum mikla aukningu í innlendum og erlendum ferðamönnum. Það er búið að vera mikil aukning í júní og reksturinn gengur mun betur núna heldur en fyrir nokkrum vikum. Við sjáum líka bókanir fyrir sumarið. Grindavík er komið meira á kortið hjá erlendum ferðaskrifstofum,“ segir Hilmar S. Sigurðsson, annar eiganda Bryggjunnar í Grindavík.

Veitingastaðir í Grindavík eru að fá bókanir út sumarið frá erlendum ferðamönnum og þá er sérstök aukning á hópabókunum frá skemmtiferðaskipum. Talsverður fjöldi skemmtiferðaskipa fara hringinn í kringum landið í sumar og staldra þá við á Reykjanesinu.

„Mér sýnist fleiri skemmtiferðaskip vera að koma við í Grindavík. Þessi skip eru með sérstakar reglur um fjöldann, þetta er um 50 prósenta nýting vegna COVID-19. Þessir hópar sem koma á Bryggjuna frá skemmtiferðaskipunum þurfa að fá sér sal og mega ekki vera innan um aðra,“ útskýrir Hilmar en veislusalur þeirra á annarri hæðinni, Bryggjan Netagerðin, nýtist vel í það.

Hilmar S. Sigurðsson og tónlistarmaðurinn Axel Ómarsson, eigendur Bryggjunnar í Grindavík.
Fréttablaðið/Hringbraut

En gosið er ekki bara spennandi fyrir útlendingana. Íslendingar eru í auknum mæli að sækja Reykjanesið heim að sögn Helgu Árnadóttur hjá Bláa Lóninu.

„Við tökum eftir því að Íslendingar eru að taka sér góðan dag í að heimsækja Reykjanesið, skoða gosið og enda jafnvel daginn ofan í lóninu og fá sér bita,“ segir Helga.

„Við sjáum líka merki, eftir því sem erlendum ferðamönnum fjölgar, að þeir hafa mikinn áhuga á gosinu og margir hverjir heimsækja það á leið sinni um landið.“

Í gegnum árin hafa ferðamenn gjarnan komið við í Bláa Lóninu á leiðinni frá Leifsstöð í Keflavík til Reykjavíkur en nú halda þeir áfram og taka hringinn um Reykjanesið í gegnum Grindavík, Krýsuvík og Kleifarvatn og þaðan til Reykjavíkur eða þá áfram í átt að Þorlákshöfn í Ölfusi.

Íslendingar kíkja margir í Bláa lónið eftir göngu á gosstöðvarnar.
Fréttablaðið/Ernir

Ferðamálastofa hefur ekki ítarlega yfirsýn á skemmtiferðaskipum í sumar en Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir eldgosið í Geldingadölum greinilega mikla lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á Reykjanesinu.

„Greinilegt líka að heimamenn þar eru að vinna í að hagnýta sér þá athygli og áhuga sem gosið er að færa,“ segir Skarphéðinn í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.