Matvælafyrirtækið Good Good, sem selur meðal annars til 1.800 verslana í Bandaríkjunum, var að ljúka við 400 milljón króna hlutafjáraukningu. „Það hefur verið góður stígandi í sölunni. Hlutaféð var aukið til að styrkja sókn okkar í Bandaríkjunum,“ segir Jóhann Ingi Kristjánsson, stjórnarformaður Good Good. Fjórir fjárfestar, þar á meðal Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, sem ekki voru áður á meðal hluthafa, lögðu fyrirtækinu til fé.

„Good Good þróar og framleiðir matvörur án viðbætts sykurs, vörur sem vanalega eru með miklum sykri. Vinsælustu vörurnar okkar eru sultur, hnetu- og súkkulaðismyrja, ketóstangir og síróp. Hnetu- og súkkulaðismyrjan okkar þykir víst ekki síðri en Nutella,“ segir Jóhann Ingi í samtali við Markaðinn.

Lítil vöruþróun í sultum

Hann segir að fram að þessu hafi ekki verið mikil vöruþróun í sultum og í því felist tækifæri Good Good. „Lengi hafa sultur verið framleiddar úr ávöxtum og sykri. Í okkar sultu er ekki sykur heldur náttúruleg sætuefni.“

Eftir hlutafjáraukninguna eru stærstu hluthafar Good Good; Lyng sem er móðurfélag Icepharma, Agnar Tryggvi Lemacks ráðgjafi, Svanhildur Nanna fjárfestir og Einar Kristjánsson hagfræðingur. Hópur fjárfesta stofnaði félagið Good Good árið 2015, sem var byggt á grunni Via Health í Hafnarfirði sem framleiddi stevíudropa.

Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir tók þátt í 400 milljón króna hlutafjáraukningu Good Good.

Jóhann Ingi segir að salan hafi aukist um rúmlega 50 prósent á Amazon í Bandaríkjunum undanfarnar tvær vikur, sem rekja má til aukinnar netverslunar sem er viðbragð neytenda við kórónaveirunni. „Eftirspurnin eftir vörunum okkar hefur ekki minnkað vegna kórónaveirufaraldursins. Faraldurinn hefur aftur á móti haft áhrif á innviði KeHE, fyrirtækisins sem dreifir vörunum okkar í Bandaríkjunum. Þau þurfa að endurskipuleggja sinn rekstur til að bregðast við breyttum aðstæðum. Pöntunum hefur farið fjölgandi en við höfum ekki getað mætt eftirspurninni af fullum krafti.“

Vinsælasta sultan á Amazon

Good Good hefur lagt ríka áherslu á að selja vörurnar á netinu í Evrópu og í Bandaríkjunum. „Sultan okkar hefur oft verið sú vinsælasta á Amazon og þá eru sultur með sykri taldar með. Sá árangur hefur leitt til þess að innkaupastjórar stórra matvörukeðja hafa tekið eftir okkur.“

Árið 2018 hóf Good Good að selja stevíudropa í Bandaríkjunum og bauð sulturnar til sölu nokkrum mánuðum síðar. Velta Good Good var 234 milljónir króna í fyrra og tæplega tvöfaldaðist á milli ára. „Það sem af er ári hefur salan aukist um 129 prósent samanborið við síðasta ár. Vöxturinn hefur fyrst og fremst verið í Bandaríkjunum. Smásölumarkaðurinn með matvöru í Bandaríkjunum virkar með þeim hætti að á hverju ári eða svo endurskoða innkaupastjórar vöruval sitt og reyna að koma auga á eitthvað nýtt.

Okkar sérstaða er bragðgóðar, sykurlausar og ketóvænar vörur og það skýrir þann mikla árangur sem við höfum náð. Í lok árs 2018 gerðum við dreifingarsamning við KeHE, einn stærsta dreifingaraðila Bandaríkjanna á hollum matvörum,“ segir hann.

KeHE er með 16 vöruhús í Bandaríkjunum og dreifir matvöru til meira en 30.000 verslana. Í samstarfi við KeHE hefur Good Good komið vörunum sínum í sölu hjá stórum keðjum eins og Safeway, SaveMart, Walmart, Lucky´s og Meijer. Eftir eins og hálfs árs samstarf við KeHE eru Good Good vörurnar komnar í rúmlega 1.800 verslanir í Bandaríkjunum.

Hlutafjáraukningin verður meðal annars nýtt til þess að ráða tvo sölustjóra, annan á austurströnd Bandaríkjanna og hinn á vesturströndinni. „KeHE er með um fimm þúsund manns í vinnu og þar á meðal fjölda sölumanna. Hlutverk sölustjóranna okkar verður að tryggja að KeHE og aðrir dreifingaraðilar í Bandaríkjunum rói öllum árum að því að koma vörunum á framfæri. Við það að ráða fólk sem hefur starfað í faginu lengi munum við efla sókn okkar á Bandaríkjamarkað til muna,“ segir hann.

Þrír starfsmenn

Starfsmenn Good Good eru eingöngu þrír. Fyrirtækið útvistar öllu sem ekki snýr að vöruþróun, sölu og markaðssetningu. Sultuframleiðslan er til dæmis í höndum hollensks framleiðanda og súkkulaðismyrjan framleidd í Belgíu.

Arcur Finance veitti Good Good ráðgjöf varðandi fjármögnun í tengslum við hlutafjárútboðið.