Bandaríska verslanakeðjan Walmart mun hefja sölu á vörum frá íslenska matvælafyrirtækinu Good Good í lok mánaðarins. Í upphafi verða vörurnar boðnar til sölu í 102 verslunum á vegum risans í ellefu fylkjum en við lok árs verður þær að finna í 500 verslunum af 4.500. Þetta segir Garðar Stefánsson, framkvæmdastjóri Good Good, í samtali við Markaðinn.

Fyrirtækið selur matvöru sem er án viðbætts sykurs og er sætt með náttúrulegum sætuefnum sem henta meðal annars þeim sem eru á ketó mataræði. Um er að ræða sultur, súkkulaðismjör, síróp og innan tíðar munu ketóstangir bætast við vöruframboðið.

Hópur fjárfesta stofnaði félag árið 2015, sem var byggt á grunni Via Health í Hafnarfirði sem framleiddi stevíudropa. Eignarhaldsfélagið Lyng, móðurfélag Icepharma, á 70 prósenta hlut í Good Good í dag.

„Við vildum ná árangri á erlendum mörkuðum og hófum því samstarf við hollenskan framleiðanda sem framleiðir 30 milljónir sultukrukka á ári.“

Sækja innblástur til Apple og Nike

„Við breyttum hugmyndinni að baki Via Health, sköpuðum nýtt vörumerki og einbeittum okkur að því að búa til sykurlausar vörur til viðbótar við stevíudropana.

Hugmyndafræði Good Good er í anda Apple og Nike. Þau einblína á hönnun og vöruþróun en eru í samstarfi við framleiðendur til að búa til vörurnar fyrir sig. Það er eins með okkur. Við búum til uppskriftir frá grunni og hófum samstarf við framleiðslufyrirtæki.

Við erum í samstarfi við sultuframleiðanda í Hollandi. Hann kaupir mikið af jarðarberjum og við njótum góðs af þeim kjörum sem honum býðst,“ segir Garðar.

Aðsend/Good Good

Hófu að selja í Bandaríkjunum árið 2018

Árið 2018 hóf Good Good að selja stevíudropa í Bandaríkjunum og bauð sulturnar til sölu nokkrum mánuðum síðar. Að Garðars sögn eru sultur Good Good þær mest seldu hjá Amazon í Bandaríkjunum, hvort sem litið er til sykurlausra eða sykraðra. „Ketósamfélagið kynntist fyrst sultunum okkar á Amazon og það leiddi til þess að innkaupastjórar hófu að hafa samband við okkur. Walmart hafði til að mynda samband við okkur að fyrra bragði.“

Samanlagt eru vörur Good Good til sölu í um þúsund verslunum í Bandaríkjunum og finna má vörurnar í 24 löndum.

Stefna á 4,5 milljón dollara veltu í ár

Garðar segir að fyrirtækið hafi velt 1,9 milljónum dollara í fyrra og stefnt sé á að salan muni nema 4,5 milljónum dollara í ár. „Mesti vöxturinn er í Bandaríkjunum,“ segir hann. „Salan jókst að meðaltali um 13,5 prósent á viku á fjórða ársfjórðungi síðastliðins árs. Þetta er að springa út.“

Good Good selur vörur sínar í Walmart.

Grunnurinn lagður á árunum 2015 og 2016

Hann segir að grunnurinn að rekstrinum hafi verið lagður á árunum 2015 og 2016. „Í upphafi skyldi endinn skoða. Við vildum ná árangri á erlendum mörkuðum og hófum því samstarf við hollenskan framleiðanda sem framleiðir 30 milljónir sultukrukka á ári. Jafnvel þótt við þreföldum pöntunina okkar til að mæta eftirspurn frá stórum verslanakeðjum fer verksmiðjan létt með það. Allir okkar framleiðendur, hvort sem það er fyrir sulturnar, súkkulaðismyrjuna, sírópið, ketóstangirnar eða annað, geta vaxið með okkur. Ef þessi grunnur væri ekki til staðar myndu stórar keðjur ekki vilja fara í samstarf við okkur. Þær verða að geta treyst því að við getum afhent vörur í nægu magni,“ segir Garðar.

Hann bendir á að viðskiptavinir vilji að allt sé eins einfalt og hægt er. Þess vegna hafi verið brugðið á það ráð að stofna fyrirtæki í Hollandi og hýsa þær vörur sem seldar eru í Evrópu í vöruhúsi þar. Til að einfalda málin í Bandaríkjunum var dótturfélag stofnað þar og hafið samstarf við vöruhús.

Starfsmenn Good Good eru einungis þrír og starfa í Reykjavík.

„Innan skamms munum við bjóða til sölu ketóstangir og erum afar spennt fyrir því að sjá hverjar viðtökur markaðarins verða,“ segir Garðar.

Um er að ræða tvær tegundir, annars vegar með hnetukaramellu og hins vegar lakkrís. Ketóstangirnar munu fara í verslanir í þessari viku á Íslandi, í Bretlandi, Belgíu og Hollandi.