Bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs hefur hækkað verðmat sitt á Arion banka um meira en þriðjung og metur nú gengi bréfa íslenska bankans á 150 krónur á hlut.

Er fjárfestum ráðlegt að kaupa í bankanum – fyrri ráðgjöf var að halda bréfunum og verðmatsgengi upp á 112 krónur á hlut – en þetta kemur fram í nýju verðmati frá greinenda Goldman Sachs sem bankinn sendi frá sér í morgun.

Hlutabréfaverð Arion banka stendur í 114 krónum á hlut og er nýtt verðmatsgengi Goldman því nærri 32 prósentum hærra en núverandi markaðsgengi. Samkvæmt verðmati bandaríska fjárfestingabankans er markaðsvirði Arion því um 260 milljarðar króna en bókfært eigið fé bankans stóð hins vegar í 198 milljörðum í árslok.

Sjóður í stýringu Goldman Sachs var um tíma á meðal stærstu hluthafa Arion banka – með nærri 4 prósenta hlut – en seldi öll bréf sín í bankanum í fyrra.

Hlutabréfaverð Arion hefur hækkað mikið á undanförnum vikum en frá áramótum nemur hækkunin um 20 prósentum.

Bankinn skilaði ársuppgjöri sínu eftir lokun markaða síðastliðinn miðvikudag en þar kom meðal annars fram að hagnaður af áframhaldandi starfsemi á fjórða ársfjórðungi hafi numið rúmlega 8.100 milljónum króna. Hagnaður af allri starfsemi bankans var um 5.760 milljónir og arðsemi eigin fjár 11,8 prósent.

Þá tilkynnti Arion banki á mánudag fyrir viku að Seðlabankinn hefði veitt bankanum heimild til kaupa á eigin bréfum fyrir um 15 milljarða. Það er talsvert hærri fjárhæð en fólst í tilmælum bankans um miðjan janúar til íslenskra fjármálafyrirtækja. Til viðbótar þeim endurkaupum hefur bankinn boðað arðgreiðslu til hluthafa upp á 3 milljarða króna.

Að teknu tillit til arðgreiðslunnar og kaupa á eigin bréfum mun eiginfjárhlutfall bankans engu að síður standa í liðlega 27 prósentum.

Mikil velta hefur verið með bréf í Arion banka að undanförnu. Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital seldi nærri sjö prósenta hlut í bankanum – á genginu 95 krónur á hlut – undir lok janúar fyrir um 11,4 milljarða og hélt síðan áfram að minnka við hlut sinn í bankanum í byrjun þessa mánaðar. Sjóðurinn er hins vegar eftir sem áður stærsti hluthafi bankans með um 14,5 prósenta hlut.

Þá hefur annar bandarískur vogunarsjóður, Sculptor Capital Management, selt í Arion fyrir samanlagt um 16 milljarða króna frá því í byrjun desember á síðasta ári. Ajóðurinn, sem áður hét Och-Ziff Capital, var fyrir áður annar stærsti hluthafi bankans með tæplega 10 prósenta hlut en í síðustu viku kláraði hann sölu á síðustu bréfunum sem hann átti eftir í Arion.

Á sama tíma hafa eignarhaldsfélög og fjársterkir einstaklingar, meðal annars Mótás, Hvalur, Sjávarsýn og Stálskip, komið nýir inn í hluthafahóp Arion banka eða bætti við hlut sinn. Þá hafa sumir íslensku lífeyrissjóðanna, eins og meðal annars LSR, Almenni, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Festa og Brú, verið að auka við hlut sinn á síðustu vikum. Sjóðir í stýringu Akta, sem áttu samtals ríflega 0,6 prósenta hlut í Arion banka undir lok síðasta mánaðar, hafa sömuleiðis þrefaldað hlut sinn í Arion frá þeim tíma og eru núna á meðal stærstu hluthafa með tæplega 1,9 prósenta hlut.