60 ára og eldri áttu 58 prósent alls eiginfjár í landinu árið 2019, samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Eigið fé fólks fer vaxandi eftir því sem aldurinn færist yfir. Eiginfjárstaða heimila jókst um níu prósent á milli ára.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, bendir á að gögn Hagstofunnar séu ófullkomin að því leyti að þau taka ekki tillit til eigna einstaklinga í gegnum lífeyrissjóði og þar að auki sé stuðst við nafnvirði verðbréfaeignar.

Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.

„Því er um töluvert vanmat á raun- og heildarvirði verðbréfaeigna að ræða í gögnum Hagstofunnar. Gögnin gefa engu að síður nokkuð góða mynd af þeirri þróun sem á sér jafnan stað á starfsævi fólks. Eigið fé eykst statt og stöðugt eftir því sem tekjur eru lagðar fyrir og fasteignalán eru greidd niður. Skekkjan í gögnum Hagstofunnar vanmetur þó líklega þennan kynslóðamun allverulega þar sem verðbréfaeignir eru metnar að nafnvirði og lífeyrissjóðseignir eru ekki taldar með, en þær aukast einnig með starfsaldri,“ segir hún.

Allt að því ónothæf gögn

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir að gögn Hagstofunnar séu allt að því ónothæf til að skoða eignastöðu heimila enda hafi OECD-ríkin ekki viljað taka Ísland inn í sambærilega tölfræði.

Hann bendir í því samhengi á að ekki sé tekið tillit til lífeyrissjóða, sem séu um helmingur af eignum heimilanna, og að verðbréf séu skráð á nafnvirði en ekki markaðsvirði sem sé að öllum líkindum verulegt vanmat.

Finna má ýmsa fleti á gögnum Hagstofunnar. Ríkisútvarpið varpaði ljósi á að „ríkustu 10 prósentin“ eigi 44 prósent eigna á Íslandi. Til að komast í hóp þeirra tíu prósent ríkustu þarf að eiga 67 milljónir í eigið fé, samkvæmt Hagstofunni. Það er ígildi ágætrar íbúðar en Hagstofan metur fasteignir samkvæmt fasteignamati.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, fullyrti við það tækifæri að ójöfnuður væri raunverulegt vandamál á Íslandi. Eins og fyrr segir eru það einkum hinir eldri sem eiga umrætt eigið fé og til að komast í hóp 10 prósent ríkustu landsmanna þarf að eiga ígildi skuldlausrar íbúðar, samkvæmt gögnum Hagstofunnar.

Sýni meiri ójöfnuð

Konráð segir að þegar reynt sé að áætla hvernig eignadreifingin gæti litið út ef tekið sé tillit til þess að lífeyrissjóðina vanti, sem leiði til aukins jafnaðar, og verðbréf væru metin á markaðsvirði, sem leiði til aukins ójafnaðar, „þá virðist sem tölur Hagstofunnar sýni meiri ójöfnuð en er í raun. Það er samt ekki hægt að fullyrða um það þar sem nægilega góð gögn liggja ekki fyrir.“

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Anna Hrefna segir að miðað við gögn Hagstofunnar séu fasteignir langsamlega stærsti hluti eigna almennings eða 76 prósent heildareigna. „Ef heildareignum lífeyrissjóða er bætt við verðbréfaeign samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar er myndin önnur. Þá er vægi fasteigna og verðbréfaeignar nokkuð jafnt, eða um 45 prósent af heildareignum hvort.“

Í ljósi þess að formaður Samfylkingarinnar víkur að ójöfnuði er vert að hafa í huga að frelsi, þar með til athafna, fæst ekki þrifist nema að gert sé ráð fyrir ójöfnuði. Hagfræðingar á borð við Ludwig von Mises hafa sagt að einungis vegna ójafnaðar sé hægt að skapa auð í lýðræðisríkjum, því hann sé hreyfiafl í átt að aukinni hagsæld.

Nassim N. Taleb, höfundur The Black Swan og fleiri bóka, sagði að margir geri þau mistök að telja að þeir sem voru efnaðir árið 2015 séu hinir sömu og árið 2000. Það er breytilegt eftir tímabilum hverjir séu auðugir. Það á við um þessar mundir. Efnahagshremmingar sem rekja má til COVID-19 hafa gert það að verkum að margir sem áttu hlutabréf í verðmætum fyrirtækjum í fyrra þurfa að horfast í augu við það að hlutaféð er ýmist lítils eða einskis virði. Gjáin á milli efnaðra og fátækra hefur því minnkað verulega að undanförnu. Markmiðið um aukinn jöfnuð færist því nær í kreppunni.