Það er gott að hefja rekstur auglýsingastofu um þessar mundir. Auglýsingastofur finna oftast fyrst fyrir samdrætti í efnahagslífinu en að sama skapi taka þær fljótt aftur við sér þegar það tekur við sér á nýjan leik. Þegar efnahagslífið fer að byggjast upp aftur munu stjórnendur fyrirtækja vilja hrista upp í markaðsstarfinu og sækja fram. Við horfðum meðal annars til þess. Þetta segir Þormóður Jónsson, stjórnarformaður Íslensku auglýsingastofunnar, sem ýtt var úr vör að nýju hinn 4. janúar.

Hann keypti ásamt Baldvini syni sínum þrotabú Íslensku auglýsingastofunnar. Hönnunarstjórarnir Arnar Fells Gunnarsson og Arnar Ingi Viðarsson og birtingastjórinn Alexandra Ásta Axelsdóttir bættust í kjölfarið við eigendahópinn.

Baldvin, sem gegnir starfi framkvæmdastjóra stofunnar og er einnig hugmynda- og textasmiður, vekur athygli á að það sé sjaldgæft að nýjar auglýsingastofur hafi birtingastjóra innanborðs. „Okkur þótti mikilvægt að hafa sérfræðing í birtingamálum með í hugmyndavinnunni fyrir hvert verkefni til að markaðsstarfið verði markvissara.“

Rak Fíton og Fínan miðil

Þormóður rak um árabil auglýsingastofuna Fíton, sem var á meðal þeirra stærstu hérlendis, og stýrði þar áður fimm útvarpsstöðvum undir hatti Fíns miðils, þar á meðal FM 957 og X-ið 977.

Hvað fékk þig til að opna auglýsingastofu á nýjan leik eftir hlé sem varði næstum áratug?

Þormóður: „Kveikjan að þessu er Baldvin sonur minn. Hann starfaði á auglýsingastofu í Kaupmannahöfn sem ber nafnið THANK YOU en hafði hug á að flytja heim. Hann ólst upp á Fíton, lærði auglýsingagerð í London og starfaði síðar hjá Pipar/TBWA. Hann er flinkur auglýsingamaður. Á sama tíma og hann stefndi heim var Íslenska auglýsingastofan lýst gjaldþrota. Ég hafði því samband við Baldvin í september eða október og bar undir hann hvort við ættum ekki að kaupa eignir þrotabúsins ef þær myndu fást fyrir ásættanlegt verð. Segja má að Íslenska auglýsingastofan hafi komið siglandi til okkar í höfnina á réttum tíma. Endurkomuna bar að með þessum hætti. Ég hafði engin áform um að koma aftur að rekstri auglýsingastofu en sonur minn vildi reyna og ég vildi leggja honum lið og taka þátt í uppbyggingarstarfinu.“

Baldvin: „Við vorum sammála um að nálgast markaðinn á nýjan máta en ekki reka stofu með mikla yfirbyggingu sem hefur ekki reynst vel. Við leggjum höfuðáherslu á góða hönnun, hugmyndavinnu og sköpunarkraft.“

„Ég þekki það af fenginni reynslu hve erfitt það er fyrir reksturinn að vera með mikla yfirbyggingu þegar kreppir að. Það getur skilið á milli feigs og ófeigs því auglýsingabransinn er afar kvikur og verkefni geta þornað hratt upp.“

Þormóður: „Ég þekki það af fenginni reynslu hve erfitt það er fyrir reksturinn að vera með mikla yfirbyggingu þegar kreppir að. Það getur skilið á milli feigs og ófeigs því auglýsingabransinn er afar kvikur og verkefni geta þornað hratt upp.

Að sama skapi getur mikil yfirbygging gert það að verkum að viðskiptavinir mynda ekki nógu sterk tengsl við starfsmenn stofanna. Við viljum forðast það í lengstu lög enda lítum við á okkur sem framlengingu á markaðsdeildum fyrirtækja. Þetta er til dæmis ein af ástæðum þess að við ætlum okkur ekki að vera í SÍA, Sambandi íslenskra auglýsingastofa, við teljum okkur eiga frekar heima í Samtökum atvinnulífsins.“

Baldvin: „Við viljum ekki vinna fyrir viðskiptavini okkar, við viljum vinna með þeim. Því munum við hafa 14 lausar starfsstöðvar hjá okkur til að geta boðið markaðsstjórum og öðrum samstarfsaðilum að sitja hjá okkur þegar þeim hentar. Einn til tvo daga á viku, jafnvel lengur þegar við erum að leggja lokahönd á markaðsherferð.“

Baldvin Þormóðsson gegnir starfi framkvæmdastjóra Íslensku auglýsingastofunnar og er einnig hugmynda- og textasmiður.
Fréttablaðið/Ernir

Skammtímahugsun einkenni markaðsmál á Íslandi

Hann segir að skammtímahugsun hafi einkennt markaðsmál á Íslandi. „Þegar ég vann í Kaupmannahöfn, en á meðal viðskiptavina THANK YOU eru Ferrari, Royal Copenhagen og Carlsberg, vildum við ávallt ræða beint við framkvæmdastjórnina og fá hennar sýn á vörumerkið fyrir næstu fimm til tíu ár.

Hérlendis er forstjórinn oft með mótaða framtíðarsýn sem auglýsingastofan fær ekki einu sinni að vita hver er. Þess í stað er oft beðið um herferðir með skömmum fyrirvara. Langtíma hugsun í markaðsmálum er dýrmæt enda eru vörumerki ein verðmætasta eign fyrirtækja.“

Þormóður: „Það þekkist einnig að unnar eru tillögur sem talið er að markaðsstjórinn eigi auðvelt með að fá samþykki forstjórans fyrir í stað þess að leggja höfuðáherslu á hvað höfðar til markhópsins. Slík vinnubrögð draga úr virði vörumerkja sem aftur dregur úr afkomu fyrirtækja.“

Þormóður Jónsson rak um árabil auglýsingastofuna Fíton, sem var á meðal þeirra stærstu hérlendis, og stýrði þar áður fimm útvarpsstöðvum undir hatti Fíns miðils, þar á meðal FM 957 og X-ið 977.
Fréttablaðið/Ernir

Hvaða lærdóm dróstu af því Baldvin að starfa á auglýsingastofu í Danmörku?

Baldvin: „Ég steig mín fyrstu skref á auglýsingastofu þegar ég var 15 ára, fyrst vann ég í móttökunni á Fíton og síðar færði ég mig yfir í hugmyndavinnu. Á THANK YOU, þar sem ég vann í tæp þrjú ár, störfuðu nánast eingöngu hönnuðir. Ég var heillaður af því að þar störfuðu ekki viðskiptafræðingar heldur einkum skapandi fólk og djúpir sérfræðingar í markaðsmálum.

Danir eru framarlega í hönnun og hafa hana í hávegum eins og sjá má víða í samfélaginu og glæsileg húsgagnahönnun ber glöggt vitni. Þessa áherslu á hugvitið má rekja til þess að þeir búa ekki að auðlindum. Í Danmörku lærði ég að bera skynbragð á góða hönnun og það breytti sýn minni á auglýsingar. Góðri hönnun fylgir slagkraftur.“

„Í Danmörku lærði ég að bera skynbragð á góða hönnun og það breytti sýn minni á auglýsingar.“

Þormóður: „Ég lærði viðskiptafræði í Danmörku og fann þar hve mikil virðing er borin fyrir hugverkum fólks, hvort sem viðkomandi var arkitekt eða auglýsingahönnuður. Á Íslandi er því ekki að heilsa og af þeim sökum á auglýsingabransinn undir högg að sækja. Sumir telja að nánast hver sem er með tölvukunnáttu geti gert áhrifaríkar auglýsingar. Það er alrangt.“

Af hverju vilduð þið byrja með nafnið Íslenska auglýsingastofan í stað þess að finna annað nafn?

Þormóður: „Íslenska auglýsingastofan er eitt elsta og stærsta vörumerkið í auglýsingagerð. Hún var lengi vel stærsta stofan.“

Baldvin: „Þetta er feikilega sterkt vörumerki. Vitaskuld átti að endurreisa það.“

Þormóður: „Það verður áskorun að setja nýjan karakter í nafnið. Þetta er jú allt önnur stofa, aðrir starfsmenn og aðrar áherslur.“

Breytir ekki grunngildum markaðsstarfs

Þormóður segir að stafrænir miðlar séu nýjar dreifileiðir sem breyti ekki grunngildum markaðsstarfs. „Það þarf að framleiða efni sem fangar athyglina og sker í gegnum kliðinn. Í hraðanum sem fylgir stafrænum miðlum hafa markaðslögmálin gleymst. Við teljum að efnið sem stafrænar stofur hafa unnið fyrir viðskiptavini hafi oft og tíðum ekki verið boðlegt svo það sé hreint út sagt.“

Hann nefnir einnig að það þurfi mikla sérfræðiþekkingu til að birta auglýsingar á stafrænu miðlunum með áhrifaríkum hætti því tæknirisarnir breyti kerfum sínum ört. Það sé annars konar þekking en þurfi við sköpun auglýsinga. „Við berum mikla virðingu fyrir þeirri vinnu og munum kaupa þá birtingaþjónustu af öðrum en verja okkar kröftum í að skapa grípandi auglýsingar.“

„Við teljum að efnið sem stafrænar stofur hafa unnið fyrir viðskiptavini hafi oft og tíðum ekki verið boðlegt svo það sé hreint út sagt,“ segir Þormóður.
Fréttablaðið/Ernir

Baldvin segir að fyrir 20 árum hefði birtingamanneskja aldrei séð alfarið um handritaskrif og framleiðslu á sjónvarps- og útvarpsauglýsingum en það sé raunin þegar minni stafrænar stofur, sem séu í grunninn birtingahús, annist auglýsingagerðina. „Þegar birtingamanneskja sinnir líka auglýsingagerð verða auglýsingarnar oft keimlíkar enda hefur ekki grafískur hönnuður sett mark sitt á vinnuna. Við það ná þær síður til markhópsins. Það skiptir ekki máli hversu margir heyra eða sjá auglýsinguna heldur hve margir hlusta á hana; veita henni eftirtekt. Á það leggjum við áherslu.“

Byggt íbúðarhúsnæði og á í heildsölu

„Frá því að ég lét af störfum hjá Fíton árið 2015 hef ég sinnt eigin fjárfestingum,“ segir Þormóður. „Ég hef staðið fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis og fjárfesti í lítilli heildsölu, Pure Performance, sem er með umboð fyrir Amino Energy.“