Stjórnendur og stjórn SORPU og Góða hirðisins hafa ákveðið að halda rekstri verslunar Góða hirðisins við Hverfisgötu 94-96 áfram. Verslunin var opnuð í tilraunaskyni um miðjan nóvember á liðnu ári til að kanna hvort grundvöllur væri fyrir rekstri útibús Góða hirðisins.
„SORPA leggur í síauknum mæli áherslu á efri þrep úrgangsþríhyrningsins. Í honum er allt kapp lagt á að meðhöndla úrgang þannig að hann nýtist hringrásarhagkerfinu sem best, til dæmis með því að finna notuðum hlutum nýja notendur. Góði hirðirinn er flaggskip SORPU á sviði endurnota og því ánægjulegt að sjá þær viðtökur sem bæði verslunin við Hverfisgötu og netverslun Góða hirðisins hafa fengið,“ segir Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU, í tilkynningu frá SORPU.
Þar kemur fram að árangur verkefnisins hafi staðist væntingar stjórnenda og og því hafi verið ákveðið að semja til langtíma við eigendur húsnæðisins á Hverfisgötu. Árangurinn er, meðal annars, mældur í því að í janúar á þessu ári seldust um 12 þúsund fleiri munir en í janúar í fyrra.
Í tilkynningu segir enn fremur að árangurinn gefi tilefni til að kanna hvort forsendur séu fyrir að opna fleiri útibú Góða hirðisins á höfuðborgarsvæðinu.
Versluninni við Hverfisgötu verður lokað tímabundið frá og með mánudeginum 15. febrúar vegna framkvæmda og því er rýmingarsala í versluninni á Hverfisgötu í fullum gangi. Stefnt er að því að opna verslunina aftur í mars.