Eignir Toyota á Íslandi námu 4.280 milljónum og þar af voru birgðir 1.810 milljónir. Félagið er fjárhagslega traust og í árslok 2021 var eigið fé 2.567 milljónir og eiginfjárhlutfall 60 prósent.

Í tilkynningu frá Toyota segir að samþykkt hafi verið á aðalfundi að greiða 800 milljónir til hluthafa félagsins, UK fjárfestinga ehf. Sá arður verður að mestu nýttur í fjárfestingarstarfsemi móðurfélagsins, til að efla samstæðu Toyota og tengdra félaga.

Toyota hefur á að skipa metnaðarfullu starfsfólki sem leggur sig fram um að veita við skiptavinum félagsins framúrskarandi þjónustu. Ávinningur þess skilar betri rekstri sem allir starfsmenn njóta. Á þann hátt hafa starfsmenn notið þess þegar vel gengur hjá félaginu með bónusgreiðslum, og vegna góðrar afkomu á árinu 2021 voru bónusar greiddir tvisvar sinnum til starfsmanna.

Toyota á Íslandi flytur inn Toyota og Lexusbíla sem seldir eru hjá viðurkenndum söluaðilum í Kauptúni, Reykjanesbæ, á Akureyri og Selfossi. Alls voru 2064 Toyota- og Lexusbílar skráðir á árinu en voru 1587 árið áður. Toyota var mest selda bílategundin á landinu, 32. árið í röð.

Árið var bílainnflutningi frekar hagfellt þrátt fyrir áskoranir sem fylgdu heimsfaraldri. Eftirspurn var stöðug allt árið og helst enn. Fyrirtækið flytur inn breiða vörulínu allt frá fólksbílum til sendibíla og fjallajeppa og hafa bílar fyrirtækisins fyrir löngu unnið sér fastan sess fyrir áreiðanleika og góða þjónustu hjá viðurkenndum sölu- og þjónustuaðilum sem finna má á 12 stöðum á landinu.

Sjá má hraða vöruþróun hjá fyrirtækinu um þessar mundir þar sem hafin er sala og kynning á úrvali tengiltvinnbíla og rafmagnsbíla. Byggir sú þróun á meira en tveggja áratuga langri reynslu af framleiðslu Hybridbíla.

Toyota á Íslandi hefur einsett sér að vera í fararbroddi fyrirtækja á sviði umhverfismála og hefur fylgt ISO 14001 staðlinum í starfsemi sinni frá 2007. Starfsemi félagsins hefur verið kolefnisjöfnuð í samvinnu við Skógræktarfélag Íslands og Kolvið frá 2019.

Áhersla er lögð á að efla umhverfisvitund starfsfólks og áhuga þess á mikilvægi umhverfismála með reglulegri þjálfun. Félagið leggur áherslu á góða umgengni við umhverfið, endurnýtingu og endurvinnslu þess sem fellur til í rekstri eins og hægt er en fargar öðru á viðeigandi hátt. Toyota hefur langa sögu og hefur unnið af heilindum í aðfangakeðju sinni. Tekin hafa verið mörg mikilvæg skref til að tryggja gæði og jafnframt að gæta að sjálfbærni í virðiskeðjunni allri og stuðlað þannig að sjálfbærri framtíð.