Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, segir að góð afkoma skýrist aðallega af mjög góðri ávöxtun fjárfestingareigna, auk þess sem vátryggingareksturinn hafi gengið vel.

Nýlega tilkynnti Sjóvá að félagið myndi hækka afkomuspá sína fyrir árið 2021 um 300 milljónir króna. Drög að uppgjöri fjórða ársfjórðungs 2021 liggja fyrir, en samkvæmt þeim mun afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta vera um 640 milljónir króna og samsett hlutfall á fjórðungnum um 91,5 prósent.

„Afkoma af skráðum og óskráðum hlutabréfum hefur verið töluvert umfram væntingar og drífur þá góðu ávöxtun sem náðist á fjárfestingareignir á árinu. Tilkynnt var um hækkanir á óskráðum hlutabréfum í eigu félagsins bæði í tengslum við 6 mánaða og 12 mánaða uppgjör félagsins,“ segir Hermann og bætir við að iðgjaldavöxturinn hafi verið kröftugur ásamt því að tjónaþróun var hagfelld og muni þar mest um að færri stærri tjón féllu til á árinu en horfur félagsins gerðu ráð fyrir.

„Því var afkoman umfram væntingar, líkt og tilkynnt var. Erfitt getur reynst að spá fyrir um hvenær stærri tjón falla til, þau geta komið með stuttu millibili eða á lengra tímabili. Við munum svo fara betur yfir rekstrarniðurstöðurnar þegar við kynnum uppgjör fjórðungsins og ársins í heild þann 10. febrúar sem og horfur fyrir næsta ár, en áréttað skal að uppgjörið er enn í vinnslu.“

Hann segir jafnframt að þróun samsetta hlutfallsins hafi verið ánægjuleg. „Varðandi samsetta hlutfallið þá sögðum við í lok 3. ársfjórðungs síðasta árs að við myndum klára árið í 92 prósenta samsettu hlutfalli en stefnir í að niðurstaðan verði um 91 prósent. Við sögðum jafnframt á þeim tímapunkti að samsett hlutfall fyrir næstu 12 mánuði yrði 93 prósent og við höfum ekki breytt því."