Tinna Pétursdóttir hönnunarstjóri er meðeigandi Ampere sem er nýstofnuð auglýsinga- og almannatengslastofa, og auk þess formaður Grapíku, félags kvenna í grafískri hönnun á Íslandi. Hún segir að auglýsingamódelið sé að þróast í áttina að minni yfirbyggingu og styttri boðleiðum.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Fjölskyldu- og hundaútivera, skíði, hönnun, vínsmökkun og ferðalög.

Hvernig er morgunrútínan?

Ég vakna 6.30, fer í sturtu og sötra kaffibolla á meðan ég punta mig fyrir vinnudaginn. Upp úr sjö fara krakkarnir á fætur og þá breytist heimilið í umferðarmiðstöð. Ég aðstoða þessa yngstu með undirbúning og nestisgerð en svo um átta er lagt af stað út í daginn.

Þegar börnin eru hjá pabba sínum eru morgnarnir mínir alger zen-stund. Bara dund, útvarp og kaffistund með Árna, manninum mínum. Mér finnst rólegheit á morgnana alger nauðsyn og til þess að ná góðri stund ein fór ég að vakna fyrr. Ekkert er verra en hamagangur og læti í morgunsárið.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Ætli eftirminnilegasta bókin sé ekki Hundrað ára einsemd eftir Gabriel Garcia Marquez en sú áhrifaríkasta líklega Brave, not Perfect, eftir Reshma Saujani.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin síðustu misseri?

Ætli það hafi ekki verið að hætta í öruggu starfi með örugg laun og fara í eigin rekstur með fingur krossaða. Það er áhætta og smá pína í magann en alveg svakalega gaman og fram að þessu hefur það gengið vonum framar hjá okkur.

Hefur rekstrarumhverfið í geiranum tekið breytingum?

Það er margt spennandi í gangi og tækifærin eru mýmörg. Mín upplifun er sú að við séum búin að vera að sjá og sjáum áfram fram á ákveðnar breytingar í þessu hefðbundna auglýsingastofu-módeli. Minni yfirbygging og meira persónulegt með styttri boðleiðum og jafnvel dassi af meiri sjálfbærni. Mér finnst ekkert verra en stöðnun og svör eins og „svona hefur þetta alltaf verið“ fá hárin til að rísa á höfði mér.

Ég hef mikla þörf fyrir að læra nýja hluti og vaxa sem hönnuður og manneskja. Ég held að það sé góður eiginleiki í auglýsingageiranum þar sem það virkar lítið í dag að reyna að selja neytandanum drasl með glimmeri og grípandi slagorði. Það er mun áhrifameira að vera heiðarlegur og sannur og fyrir vikið sef ég betur á nóttinni.

moli.PNG

Sérðu tækifæri í þessum breytingum?

Alltaf. Það eru alltaf tækifæri í öllum breytingum, breytingar þýða tækifæri í mínum huga. Í grunninn snýst þetta kannski mest um að koma auga á þau og hlusta svo á innsæið.

Hvers hlakkarðu mest til þessa dagana?

Ég hlakka mest til þess að fara í vinnuna á morgnana og mæta á fundi, hitta kúnna og vinna vinnuna mína vel, svo hlakka ég líka alltaf agalega til að koma heim á daginn, sátt við dagsverkið og njóta þess að vera með fjölskyldunni minni. Það var nákvæmlega þetta sem okkur Guðrúnu langaði að gera þegar við fórum út í rekstur Ampere. Að hafa ekki samviskubit gagnvart neinum, hvorki börnum né yfirmönnum, og þegar það er fundið er ekki snúið aftur.

Hvar sérðu sjálfa þig eftir tíu ár?

Velgengni í mínum huga er gott jafnvægi á milli vinnu, áhugamála og fjölskyldulífs, það er það sem ég stefni á á næstu misserum. Hvað gerist eftir tíu ár er ómögulegt að vita, ég held bara áfram að vera ánægð í eigin skinni að gera það sem mér finnst gaman.