Í tölvupósti sem Skúli Mogensen, eigandi lággjandaflugfélagsins WOW air, sendi á starfsmenn sína fyrir stuttu fagnar hann mögulegum kaupum fyrirtæksins Indigo í flugfélaginu. Fréttablaðið greindi frá því í kvöld að fjárfestingafélagið Indigo Partners hefði ákveðið að fjárfesta í flugfélaginu.

Róðurinn hefur verið þungur hjá flugfélaginu síðustu misseri og í dag var greint frá því að fyrirhuguð kaup Icelandair á WOW air hefðu ekki gengið eftir. Í umræddum tölvupósti, sem Fréttablaðið hefur afrit af, greinir Skúli frá fyrirhuguðum kaupum Indigo og segist vera „himinlifandi“ yfir fregnunum.

„Takk fyrir að hætta aldrei að trúa á leiðangur okkar að því að byggja upp heimsklassa lággjalda flugfélag. Það er enn nóg að gera en við höldum áfram að gera frábæra hluti,“ segir Skúli, en í tölvupóstinum má einnig finna fréttatilkynningu um fyrirhuguð kaup Indigo.