Útgerðarfyrirtækið Gjögur tapaði tæplega 476 milljónum króna á síðasta ári, samkvæmt ársreikningi félagsins sem skilað verið til ársreikningaskrár. Félagið hagnaðist um 175 milljónir árið 2019.

Rekstrartekjur félagsins jukust úr 4,4 milljörðum í 5,5 milljarða, sem að öllum líkindum má rekja til veikingar krónunnar. Félagið er alfarið fjármagnað í evrum, en gengisveikingin varð til þess að bókfærðar skuldir félagsins í krónum hækkuðu úr tæpum 7,2 milljörðum í rúma 7,8 milljarða.

Rekstrarhagnaður félagsins jókst úr 592 milljónum árið í 735 milljónir á síðasta ári. Gengisáhrifin á efnahagsreikninginn vógu hins vegar þyngra og drógu afkomuna niður um einn milljarð króna.

Félagið gerir út þrjú skip – fjölveiðiskipið Hákon og togarana Vörð og Áskel.

Gjögur heldur á 1,97 prósent af úthlutuðu aflamarki samkvæmt yfirliti Fiskistofu. Það jafngildir tæplega 10.200 þorskígildistonnum. Tæpur helmingur aflamarks Gjögurs er í þorski, en félagið á einnig töluvert af aflaheimildum í öðrum bolfisktegundum, svo sem ýsu, ufsa og löngu.

Einnig á félagið töluverðan síldarkvóta, eða um 10 prósent af úthlutuðu aflamarki og fékk tæplega 3000 tonnum af síld úthlutað á yfirstandandi fiskveiðiári.

Stærstu eigendur Gjögurs eru systkinin Anna og Ingi Jóhann Guðmundsbörn, sem halda hvort á tæplega 44 prósent hlut.

Annar systkinahópur heldur á samanlagt um 42 prósenta hlut, þau Sigríður, Oddný, Guðjón, Björgólfur og Aðalheiður Jóhannsbörn sem eiga 8,42 prósent hvert. Freyr Njálsson, Þorbjörn Trausti Njálsson og Marínó Njálsson eiga svo 3,74 prósent hver.

Sami hópur eru eigendur Kjálkaness í sömu hlutföllum, en Kjálkanes er næststærsti hluthafi Síldarvinnslunnar með ríflega 19 prósenta hlut.