1. sæti
Sala Origo á 40 prósenta hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Tempo til fjárfestingasjóðsins Diversis Capital fyrir 28 milljarða er, að mati dómnefndar Markaðarins, þau viðskipti sem stóðu upp úr á árinu sem er að líða. Hreinn hagnaður af sölunni nam ríflega 22 milljörðum.
Tempo býr til hugbúnað sem hjálpar fyrirtækjum við tímastjórnun, áætlanagerð og kostnaðarstjórnun. Tempo var upphaflega þróað sem lausn við innanbúðarvandamáli hjá Nýherja, sem nú heitir Origo, í kringum fjármálahrunið en árið 2015 var stofnað sérstakt félag utan um rekstur Tempo.
Þegar tilkynnt var um viðskiptin í október síðastliðnum sagði Jón Björnsson, forstjóri Origo, að uppgangur Tempo væri skýrt dæmi um það hvernig frábært starfsfólk, íslenskt hugvit og stuðningur eigenda geti búið til mikil heilmikil verðmæti. Það væri jafnframt von Origo að fleiri hugbúnaðarvörur gætu átt jafn farsælan feril og Tempo í framtíðinni.
Dómnefnd Markaðarins var á einu máli um ágæti sölunnar og framgöngu stjórnenda Origo í tengslum við málið.
„Einstaklega gjöful viðskipti fyrir hluthafa Origo, sem fengu vænan skerf af sölunni inn á vörslureikninga sína í byrjun desember,“ segir meðal annars í rökstuðningi dómnefndar.
Fyrir utan fjárhagslegan ávinning nefndu meðlimir dómnefndar hve mikil viðurkenning salan væri fyrir íslenskan hugverkaiðnað. „Þessi viðskipti munu án efa laða erlenda fjárfesta að þessum öfluga iðnaði. Sala af þessari stærðargráðu ryður brautina og kveikir áhuga. Það er gríðarlega mikilvægt og verðskuldað.“
Aukinheldur er Origo talið það til tekna að hafa klárað söluna við erfiðar aðstæður.

„Félagið er að uppskera eins og til var sáð og niðurstaðan er ein stærsta sala allra tíma á íslensku hugviti"
„Origo hefur verið á góðri siglingu síðastliðin ár og stóran hluta af því má rekja til uppgangs Tempo. Virkilega vel gert að klára söluna miðað við hvernig markaðsaðstæður hafa þróast á árinu,“ segir í rökstuðningi dómnefndar.
Einn af álitsgjöfum Markaðarins segir söluna á Tempo sjónarmun á undan kaupum Síldarvinnslunnar á Vísi við val á viðskiptum ársins. Aðallega vegna þess hve krefjandi aðstæður hafi verið á hlutabréfamörkuðum. Í því ljósi séu þessi viðskipti enn stærri en ætla mætti í fyrstu. Flestir hafi talið að viðskipti af þessu tagi væru komin í bið vegna óróa á mörkuðum.
„Réttar ákvarðanir stjórnenda undanfarin ár í tengslum við Tempo eru aðdáunarverðar. Til dæmis sú ákvörðun að fá inn erlenda fjárfesta árið 2018. Félagið er að uppskera eins og til var sáð og niðurstaðan er ein stærsta sala allra tíma á íslensku hugviti. Virkilega vel gert að ná þessu í gegn í þessu árferði,“ segir í mati dómnefndar.
2. sæti
Aðdáunarverð þrautseigja
Þótt tilkynnt hafi verið um sölu Símans á Mílu til franska fjárfestingasjóðsins Ardian á síðasta ári þá varð ekki ljóst fyrr vel var liðið á þetta ár að Samkeppniseftirlitið myndi endanlega leggja blessun sína yfir viðskiptin.
Í millitíðinni þurftu samningsaðilar að setjast niður í tvígang og semja upp á nýtt. Þótt kaupverðið hafi lækkað frá því sem samið var um í fyrsta samningi er salan á innviðafyrirtækinu Mílu söguleg viðskipti. Fyrir eljuna, sem þurfti til að klára viðskiptin á árinu, valdi dómnefnd Markaðarins Orra Hauksson, forstjóra Símans, viðskiptamann ársins. Þegar öll sund virtust lokuð og útlit fyrir að viðskiptunum yrði endanlega rift, stigu stjórnendur Símans fram, með Orra í fararbroddi, og sigldu fleyinu í höfn.

„Þótt endanlegt kaupverð hafi reynst lægra en samið var um í upphafi leikur enginn vafi á því að salan á Mílu eru tímamótaviðskipti."
Að mati dómnefndar er fullt tilefni til að taka ofan fyrir forsvarsfólki Símans vegna sölunnar á Mílu á þessu ári líkt og því síðasta. Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars: „Þótt endanlegt kaupverð hafi reynst lægra en samið var um í upphafi leikur enginn vafi á því að salan á Mílu eru tímamótaviðskipti. Eftir stendur Síminn með 46 milljarða í kassanum, sem er mun hærri fjárhæð en nokkur hefði getað gert sér í hugarlund fyrir fáeinum árum. Aukinheldur eru viðskiptin gríðarlega góð tíðindi fyrir önnur íslensk fyrirtæki á fjarskiptamarkaði.“
3. sæti
Síldarvinnslan styrkir stöðu sína
Um mitt sumar var tilkynnt að Síldarvinnslan hefði náð samkomulagi um kaup á öllu hlutafé útgerðarfélagsins Vísis í Grindavík en Vísir er rótgróið fyrirtæki sem rekur bæði saltfiskvinnslu og frystihús í Grindavík auk þess að gera út sex fiskiskip.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar kom fram að viðskiptin hefðu hljóðað upp á 31 milljarð króna. Kaupverð hlutafjár var um 20 milljarðar en vaxtaberandi skuldir Vísis um 11 milljarðar. Með viðskiptunum skipuðu seljendur Vísis sér í hóp kjölfestufjárfesta í Síldarvinnslunni.

„Þessi viðskipti eiga eftir að styrkja bæði félög til lengri tíma litið."
Dómnefnd Markaðarins valdi kaup Síldarvinnslunnar á Vísi þriðju bestu viðskipti ársins.
Viðskiptin sættu nokkurri gagnrýni fyrstu vikurnar eftir að gengið var frá samningum. En eftir að Samkeppniseftirlitið lagði blessun sína yfir gjörninginn hafa þær raddir þagnað að mestu.
„Það leikur enginn vafi á að þessi viðskipti eiga eftir að styrkja bæði félög til lengri tíma litið. Vísir verður rekið sem dótturfélag og mun starfsemin í Grindavík verða enn öflugri en hingað til. Aðkoma jafn öflugs félags og Síldarvinnslunnar mun ýta undir samkeppnishæfni og sjálfbærni Vísis.“
Að mati dómnefndar bendir ekkert til annars en að tilgangur Síldarvinnslunnar með kaupunum sé að hámarka verðmæti afurða. Nú sem endranær.
„Starfsemin í Grindavík mun styrkja samsteypuna enn frekar í þeirri vinnu,“ segir í mati dómnefndar.
Önnur viðskipti sem voru tilnefnd
Salan á Sling til Toast
„Að fara á sjö árum úr því að labba á milli mögulegra viðskiptavina í Bandaríkjunum með PowerPoint-skjal í að selja fyrirtækið á átta komma sex milljarða er afrek sem vert er að veita athygli. Það fór ekki mikið fyrir Helga Hermannssyni og félögum hjá Sling framan af en þau eiga heiðurinn af öskubuskuævintýri ársins í íslensku viðskiptalífi.“
Íslandsbankasalan
„Önnur viðskipti sem komast á blað er útboð Íslandsbanka sem var vel heppnað. Ljóst er að tímasetningin var góð fyrir ríkið sem seljanda, sem heldur enn eftir verulegum hlut í félaginu. Þótt framkvæmdin á sölunni hafi valdið deilum og verið umdeild þá leikur enginn vafi á að verðið sem fékkst fyrir 22,5 prósenta hlut ríkisins var mjög gott.“

Kaup Hampiðjunnar á Morenot
„Félagið hefur verið að gera frábæra hluti í yfirtökum sem hafa styrkt arðsemi félagsins. Þar stóðu kaupin á Voninni í Færeyjum upp úr. Kaupin á Morenot marka önnur skil í vexti félagsins. Kemur ekki á óvart að bréfin hafi hækkað um 20 prósent daginn eftir tilkynningu og líkt og með Vonina fela þessi kaup í sér umtalsverð tækifæri til samlegðar.“
Viðskipti Síldarvinnslunnar
„Viðburðaríkt ár hjá Síldarvinnslunni og nokkuð ljóst að það er mikill hugur í eigendum og stjórnendum fyrirtækisins á krefjandi tímum. Margur hefði haldið að kaupin á útgerðarfélaginu Vísi frá Grindavík væri nægilega stór biti á einu ári en Síldarvinnslan lét ekki þar við sitja og keypti líka stóran hlut í fiskeldisfyrirtækinu Arctic Fish.“
Carbfix á siglingu
„Uppgangur Carbfix er aðdáunarverður. Fyrirtækið er að skipa sér í raðir brautryðjenda í kolefnisförgun andspænis loftslagsvandanum. Tæknin sem Carbfix hefur þróað skilaði meðal annars styrk upp á 16 milljarða frá nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins á árinu og fyrirtækið heldur áfram að vaxa og dafna í spennandi geira umhverfisvænna lausna.“