1. sæti

Sala Origo á 40 prósenta hlut í hug­búnaðar­fyrir­tækinu Tempo til fjár­festinga­sjóðsins Diversis Capi­tal fyrir 28 milljarða er, að mati dóm­nefndar Markaðarins, þau við­skipti sem stóðu upp úr á árinu sem er að líða. Hreinn hagnaður af sölunni nam ríf­lega 22 milljörðum.

Tempo býr til hug­búnað sem hjálpar fyrir­tækjum við tíma­stjórnun, á­ætlana­gerð og kostnaðar­stjórnun. Tempo var upp­haf­lega þróað sem lausn við innan­búðar­vanda­máli hjá Ný­herja, sem nú heitir Origo, í kringum fjár­mála­hrunið en árið 2015 var stofnað sér­stakt fé­lag utan um rekstur Tempo.

Þegar til­kynnt var um við­skiptin í októ­ber síðast­liðnum sagði Jón Björns­son, for­stjóri Origo, að upp­gangur Tempo væri skýrt dæmi um það hvernig frá­bært starfs­fólk, ís­lenskt hug­vit og stuðningur eig­enda geti búið til mikil heil­mikil verð­mæti. Það væri jafn­framt von Origo að fleiri hug­búnaðar­vörur gætu átt jafn far­sælan feril og Tempo í fram­tíðinni.

Dóm­nefnd Markaðarins var á einu máli um á­gæti sölunnar og fram­göngu stjórn­enda Origo í tengslum við málið.

„Ein­stak­lega gjöful við­skipti fyrir hlut­hafa Origo, sem fengu vænan skerf af sölunni inn á vörslu­reikninga sína í byrjun desember,“ segir meðal annars í rök­stuðningi dóm­nefndar.

Fyrir utan fjár­hags­legan á­vinning nefndu með­limir dóm­nefndar hve mikil viður­kenning salan væri fyrir ís­lenskan hug­verka­iðnað. „Þessi við­skipti munu án efa laða er­lenda fjár­festa að þessum öfluga iðnaði. Sala af þessari stærðar­gráðu ryður brautina og kveikir á­huga. Það er gríðar­lega mikil­vægt og verð­skuldað.“

Aukin­heldur er Origo talið það til tekna að hafa klárað söluna við erfiðar að­stæður.

FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR

„Fé­lagið er að upp­skera eins og til var sáð og niður­staðan er ein stærsta sala allra tíma á ís­lensku hug­viti"

„Origo hefur verið á góðri siglingu síðast­liðin ár og stóran hluta af því má rekja til upp­gangs Tempo. Virki­lega vel gert að klára söluna miðað við hvernig markaðs­að­stæður hafa þróast á árinu,“ segir í rök­stuðningi dóm­nefndar.

Einn af á­lits­gjöfum Markaðarins segir söluna á Tempo sjónar­mun á undan kaupum Síldar­vinnslunnar á Vísi við val á við­skiptum ársins. Aðal­lega vegna þess hve krefjandi að­stæður hafi verið á hluta­bréfa­mörkuðum. Í því ljósi séu þessi við­skipti enn stærri en ætla mætti í fyrstu. Flestir hafi talið að við­skipti af þessu tagi væru komin í bið vegna óróa á mörkuðum.

„Réttar á­kvarðanir stjórn­enda undan­farin ár í tengslum við Tempo eru að­dáunar­verðar. Til dæmis sú á­kvörðun að fá inn er­lenda fjár­festa árið 2018. Fé­lagið er að upp­skera eins og til var sáð og niður­staðan er ein stærsta sala allra tíma á ís­lensku hug­viti. Virki­lega vel gert að ná þessu í gegn í þessu ár­ferði,“ segir í mati dóm­nefndar.

2. sæti

Aðdáunarverð þrautseigja

Þótt til­kynnt hafi verið um sölu Símans á Mílu til franska fjár­festinga­sjóðsins Ardian á síðasta ári þá varð ekki ljóst fyrr vel var liðið á þetta ár að Sam­keppnis­eftir­litið myndi endan­lega leggja blessun sína yfir við­skiptin.

Í milli­tíðinni þurftu samnings­aðilar að setjast niður í tví­gang og semja upp á nýtt. Þótt kaup­verðið hafi lækkað frá því sem samið var um í fyrsta samningi er salan á inn­viða­fyrir­tækinu Mílu sögu­leg við­skipti. Fyrir eljuna, sem þurfti til að klára við­skiptin á árinu, valdi dóm­nefnd Markaðarins Orra Hauks­son, for­stjóra Símans, við­skipta­mann ársins. Þegar öll sund virtust lokuð og út­lit fyrir að við­skiptunum yrði endan­lega rift, stigu stjórn­endur Símans fram, með Orra í farar­broddi, og sigldu fleyinu í höfn.

„Þótt endan­legt kaup­verð hafi reynst lægra en samið var um í upp­hafi leikur enginn vafi á því að salan á Mílu eru tíma­móta­við­skipti."

Að mati dóm­nefndar er fullt til­efni til að taka ofan fyrir for­svars­fólki Símans vegna sölunnar á Mílu á þessu ári líkt og því síðasta. Í rök­stuðningi dóm­nefndar segir meðal annars: „Þótt endan­legt kaup­verð hafi reynst lægra en samið var um í upp­hafi leikur enginn vafi á því að salan á Mílu eru tíma­móta­við­skipti. Eftir stendur Síminn með 46 milljarða í kassanum, sem er mun hærri fjár­hæð en nokkur hefði getað gert sér í hugar­lund fyrir fá­einum árum. Aukin­heldur eru við­skiptin gríðar­lega góð tíðindi fyrir önnur ís­lensk fyrir­tæki á fjar­skipta­markaði.“

3. sæti

Síldar­vinnslan styrkir stöðu sína

Um mitt sumar var til­kynnt að Síldar­vinnslan hefði náð sam­komu­lagi um kaup á öllu hluta­fé út­gerðar­fé­lagsins Vísis í Grinda­vík en Vísir er rót­gróið fyrir­tæki sem rekur bæði salt­fisk­vinnslu og frysti­hús í Grinda­vík auk þess að gera út sex fiski­skip.

Í til­kynningu til Kaup­hallarinnar kom fram að við­skiptin hefðu hljóðað upp á 31 milljarð króna. Kaup­verð hluta­fjár var um 20 milljarðar en vaxta­berandi skuldir Vísis um 11 milljarðar. Með við­skiptunum skipuðu selj­endur Vísis sér í hóp kjöl­festu­fjár­festa í Síldar­vinnslunni.

Gunnar Andrésson

„Þessi við­skipti eiga eftir að styrkja bæði fé­lög til lengri tíma litið."

Dóm­nefnd Markaðarins valdi kaup Síldar­vinnslunnar á Vísi þriðju bestu við­skipti ársins.

Við­skiptin sættu nokkurri gagn­rýni fyrstu vikurnar eftir að gengið var frá samningum. En eftir að Sam­keppnis­eftir­litið lagði blessun sína yfir gjörninginn hafa þær raddir þagnað að mestu.

„Það leikur enginn vafi á að þessi við­skipti eiga eftir að styrkja bæði fé­lög til lengri tíma litið. Vísir verður rekið sem dóttur­fé­lag og mun starf­semin í Grinda­vík verða enn öflugri en hingað til. Að­koma jafn öflugs fé­lags og Síldar­vinnslunnar mun ýta undir sam­keppnis­hæfni og sjálf­bærni Vísis.“

Að mati dóm­nefndar bendir ekkert til annars en að til­gangur Síldar­vinnslunnar með kaupunum sé að há­marka verð­mæti af­urða. Nú sem endra­nær.

„Starf­semin í Grinda­vík mun styrkja sam­steypuna enn frekar í þeirri vinnu,“ segir í mati dóm­nefndar.

Önnur við­skipti sem voru til­nefnd

Salan á Sling til Toast
„Að fara á sjö árum úr því að labba á milli mögu­legra við­skipta­vina í Banda­ríkjunum með Power­Point-skjal í að selja fyrir­tækið á átta komma sex milljarða er af­rek sem vert er að veita at­hygli. Það fór ekki mikið fyrir Helga Her­manns­syni og fé­lögum hjá Sling framan af en þau eiga heiðurinn af ösku­bu­sku­ævin­týri ársins í ís­lensku við­skipta­lífi.“

Ís­lands­banka­salan
„Önnur við­skipti sem komast á blað er út­boð Ís­lands­banka sem var vel heppnað. Ljóst er að tíma­setningin var góð fyrir ríkið sem seljanda, sem heldur enn eftir veru­legum hlut í fé­laginu. Þótt fram­kvæmdin á sölunni hafi valdið deilum og verið um­deild þá leikur enginn vafi á að verðið sem fékkst fyrir 22,5 prósenta hlut ríkisins var mjög gott.“

Samsett mynd.

Kaup Hamp­iðjunnar á Mor­e­not
„Fé­lagið hefur verið að gera frá­bæra hluti í yfir­tökum sem hafa styrkt arð­semi fé­lagsins. Þar stóðu kaupin á Voninni í Fær­eyjum upp úr. Kaupin á Mor­e­not marka önnur skil í vexti fé­lagsins. Kemur ekki á ó­vart að bréfin hafi hækkað um 20 prósent daginn eftir til­kynningu og líkt og með Vonina fela þessi kaup í sér um­tals­verð tæki­færi til sam­legðar.“

Við­skipti Síldar­vinnslunnar
„Við­burða­ríkt ár hjá Síldar­vinnslunni og nokkuð ljóst að það er mikill hugur í eig­endum og stjórn­endum fyrir­tækisins á krefjandi tímum. Margur hefði haldið að kaupin á út­gerðar­fé­laginu Vísi frá Grinda­vík væri nægi­lega stór biti á einu ári en Síldar­vinnslan lét ekki þar við sitja og keypti líka stóran hlut í fisk­eldis­fyrir­tækinu Arctic Fish.“

Car­b­fix á siglingu
„Upp­gangur Car­b­fix er að­dáunar­verður. Fyrir­tækið er að skipa sér í raðir braut­ryðj­enda í kol­efnis­förgun and­spænis lofts­lags­vandanum. Tæknin sem Car­b­fix hefur þróað skilaði meðal annars styrk upp á 16 milljarða frá ný­sköpunar­sjóði Evrópu­sam­bandsins á árinu og fyrir­tækið heldur á­fram að vaxa og dafna í spennandi geira um­hverfis­vænna lausna.“