Hæstiréttur í Bretlandi hefur komist að þeirri niðurstöðu að samkomulag sem breski auðjöfurinn Moises Gertner gerði við Kaupþing hafi falið í sér trúnaðarbrot. Dómstóllinn féllst því á kröfu ísraelska félagsins CFL Lender um að taka bú Gertner til gjaldþrotaskipta. The Times greindi frá þessu í dag.

Gertner, sem var eitt sinn einn ríkasti maður Bretlands, gerði samkomulagið við 31 kröfuhafa um uppgjör á skuldum sínum fyrir fjórum árum. Hann skuldaði um 600 milljónir punda og var skuld hans við Kaupþing hæst en hún nam 547 milljónum punda, eða um 100 milljörðum íslenskra króna. Samið var um að Gertner greiddi kröfuhöfunum aðeins 500 þúsund pund sem þeir skiptu á milli sín og fékk Kaupþing þar mest.

Í ljós kom þó að Kaupþing hafi einnig átt að hagnast fjárhagslega á eignum sem var haldið utan samkomulagsins en dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að slíkt fæli í sér trúnaðarbrot.

Gertner reyndi að komast hjá gjaldþrotinu með sáttagerð við kröfuhafa sína sem fól í sér greiðslu 450 þúsund punda. Sáttagerðin var studd af stærsta kröfuhafa Gertner, Laser Trust, sem keypti 799 milljóna punda skuld af Kaupþingi á síðasta ári. Dómstóllinn taldi félagið þó ekki óháð í málinu og féllst á kröfu CFL Lender um að taka bú Gertner til gjaldþrotaskipta.

Lögmaður Gertner staðfesti þá við fréttastofu Times að niðurstaða dómstólsins hafi verið kærð til æðra dómstigs.