Ferðaskrifstofan Gaman Ferðir hefur skilað inn ferðaskrifstofuleyfi sínu og hætt starfsemi. Segir í tilkynningu á heimasíðu þeirra að fall WOW Air, sem átti 49 prósenta hlut í fyrirtæki, hafi verið þeim „þyngri baggi“ en gert hafði verið ráð fyrir. Þar kemur einnig fram að þótt að félagið sjálft hafi staðið vel var þeim orðið ljóst að lausafjárstaða félagsins næstu sex mánuðina yrði ekki nægjanlega sterk til að rétt áframhaldandi starfsemi og því ákveðið að stöðva reksturinn áður en bæði viðskiptavinum og starfsfólki yrði gerður fjárhagslegur skaði.

„Það var eingöngu vegna WOW. Við vorum búin að gera okkur áætlun þegar Wow byrjaði að lenda í vandræðum en þetta varð mun þyngra högg en við bjuggumst við,“ segir Bragi Hinrik Magnússon hjá Gaman ferðum í samtali við Fréttablaðið.

Hann segir að starfsmenn fyrirtækisins hafi reynt allt síðustu vikur til að reyna að koma í veg fyrir að svo færi, en til að koma í veg fyrir vandræði hafi verið ákveðið að hætta rekstri.

Fjórtán missa vinnuna

Hann segir að með því þá missi um fjórtán manns vinnuna en það sé unnið með þeim náið að því að allir fái laun greidd þótt að þau séu að hætta.

„Við erum ekki á leið í gjaldþrot þannig það verður leyst. Þetta er samrýmd fjölskylda og við leysum þetta með þeim,“ segir Bragi.

Farþegum bent á að leita til ferðamálastofu

Bragi segir að það sé „góður slatti“ af farþegum sem eigi bókað með þeim en þau eigi fund með Ferðamálastofu á morgun þar sem farið verður yfir helstu aðgerðaáætlanir sem taki við í kjölfar þess að þau hætti rekstri.

Ferðaskrifstofan hafði lögbundnar tryggingar sem munu grípa inn í og endurgreiða þeim sem komast ekki í fyrirhugaðar ferðir. Á heimasíðu er farþegum bent á að þau þurfi að gera kröfu í tryggingaféð rafrænt í gegnum þjónustugátt Ferðamálastofu. Þar er einnig hægt að fá öllum spurningum varðandi málið svarað.

„Við vorum búin að taka við bókunum hjá mörgum. En það er ekkert allt sem fellur niður. Dágóður hluti getur enn farið í sínar ferðir því við erum búin að borga út. Þeir sem eru úti frá okkur núna eru ekki í neinum vandræðum. Það er búið að greiða öll flug heim. Við höfum girt fyrir mörg möguleg vandamál,“ segir Bragi.

Hann segir að lokum að honum þyki þetta mjög leiðinlegt en þetta hafi verið betri ákvörðun en að fara í gjaldþrot.

„Við hefjum okkar sorgarferli núna. Þetta er skuldlaust félag. Við bara sáum fram á að lenda í vandræðum gagnvart okkar viðskiptavinum og þá er betra að vera hreinir og beinir og fara strax í aðgerðir,“ segir Bragi.