Gildi lífeyrissjóður hefur minnkað hlut sinn í Skeljungi úr 10,3 prósentum í 2,7 prósent eða um 7,6 prósent, samkvæmt flöggun til Kauphallarinnar.

Um svipað leyti var upplýst um að bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic hafi keypt um fimm prósenta hlut í Skeljungi.

Miðað við markaðsverð Skeljungs um þessar mundir hefur Gildi losað yfir tvo milljarða króna í Skeljungi. Það sem af er ári hefur Skeljungur hækkað um 43 prósent.

Fram hefur komið í Markaðnum að Taconic Capital hafi verið á meðal þeirra sem kom að fjármögnun á skuldsettri yfirtöku félagsins Strengs, sem hjónin Ingibjörg Pálmadóttur og Jón Ásgeir Jóhannesson og Sigurður Bollason fóru meðal annars fyrir, á Skeljungi í byrjun ársins 2021.

Stærstur hluti fjármögnunarinnar var hins vegar frá Arion banka og Íslandsbanka, umsjónaraðilar með yfirtökunni. Strengur, sem átti þá um 36 prósenta hlut, setti fram tilboð í alla hluti Skeljungs í nóvember í fyrra á genginu 8,315 krónur á hlut sem verðmat það á 16 milljarða. Markaðsgengið er nú 14,5 eða 74 prósentum hærra.

Fáir hluthafar Skeljungs samþykktu yfirtökutilboðið, eða aðeins eigendur 2,56 prósenta hlutafjár, en í kjölfarið bætti Strengur við sig hlutum með kaupum á markaði og varð meirihlutaeigandi með rúmlega 50 prósenta hlut í byrjun janúar.

Viðskiptin við yfirtökuna, sem af þeim sem til þekkja eru sögð hafa verið einstaklega flókin í framkvæmd, voru fjármögnuð með veðlánum frá bönkum, víkjandi lánum, brúarlánum auk eiginfjárframlags.