Lífeyrissjóðurinn Gildi keypti um þriðjung alls hlutafjárins sem var selt í almennu hlutafjárútboði Síldarvinnslunnar sem lauk um miðja síðustu viku. Eignarhlutur lífeyrissjóðsins í sjávarútvegsfyrirtækinu eftir útboðið, samkvæmt upplýsingum sem fengust frá Gildi, nemur 9,98 prósentum sem þýðir að hann fjárfesti fyrir liðlega tíu milljarða króna.

Aðrir íslenskir lífeyrissjóðir keyptu fyrir miklu lægri fjárhæðir – Almenni kemur næst á eftir Gildi með um 1.430 milljónir sem tryggir sjóðnum um 1,4 prósenta eignarhlut – en samanlagt fjárfestu þeir fyrir að lágmarki um 14 milljarða króna í útboði Síldarvinnslunnar. Meira en helmingur sjóðanna tók hins vegar annað hvort ekki þátt eða, sem var í fleiri tilfellum, skráði sig fyrir bréfum en fékk ekkert úthlutað þar sem tilboð þeirra var lægra en endanlegt útboðsgengi – 60 krónur á hlut – sem var ákvarðað í tilfelli fagfjárfesta, samkvæmt svörum sem Markaðurinn aflaði sér frá nærri tuttugu lífeyrissjóðum.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), stærsti lífeyrissjóður landsins, var eini sjóðurinn sem svaraði ekki fyrirspurn Markaðarins varðandi þátttöku í hlutafjárútboðinu. Lífeyrissjóðurinn Stapi, sem er með skrifstofur sínar á Akureyri, staðfesti þátttöku í útboðinu, ásamt Lífeyrissjóði starfsmanna Akureyrarbæjar en Stapi sér um rekstur sjóðsins, en vildi aftur á móti ekki gefa upp hversu stóran hlut sjóðurinn hefði keypt fyrir.

Gildi, sem er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins, verður fjórði stærsti hluthafi Síldarvinnslunnar þegar viðskipti með bréf í félaginu hefjast í Kauphöllinni hinn 27. maí næstkomandi. Ólíkt öðrum helstu lífeyrissjóðum fer Gildi ekki með neinn eignarhlut í Brimi, sem er í dag eina útgerðarfyrirtækið sem er skráð á hlutabréfamarkað, eftir að hafa selt öll bréf sín í félaginu haustið 2019. Gildi er hins vegar næststærsti hluthafinn í laxeldis­fyrirtækinu Arnarlaxi með 5,5 prósenta hlut en markaðsvirði þess hlutar er um þrír milljarðar króna.

Í hlutafjárútboði Síldarvinnslunnar, sem er eitt af umsvifamestu útgerðarfyrirtækjum landsins, var seldur 29,3 prósenta hlutur fyrir samtals 29,7 milljarða. Heildarvirði félagsins er þess vegna metið á um 101 milljarð króna. Nær 6.500 áskriftir bárust í útboðinu fyrir um 60 milljarða – það var því ríflega tvöföld umframeftirspurn – en það voru Samherji og Kjálkanes sem stóðu að sölu meginþorra bréfanna. Félögin verða hins vegar eftir sem áður stærstu hluthafar Síldarvinnslunnar en þar á eftir kemur Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað.

Tveir lífeyrissjóðir staðfestu í svörum sínum til Markaðarins að þeir hefðu ekki tekið þátt í útboðinu en það eru Birta og Lífeyrissjóður verkfræðinga (Lífsverk). Birta er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins með eignir upp á um 500 milljarða. Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) segist hins vegar hafa keypt fyrir um milljarð sem þýðir að sjóðurinn verður með um eins prósents eignarhlut í Síldarvinnslunni.

Það vakti athygli í aðdraganda hlutfjárútboðs Síldarvinnslunnar þegar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagðist vona að hvorki lífeyrissjóðir sem félagsmenn stéttarfélagsins greiða í eða almenningur myndu taka þátt í útboðinu. Velti hann því meðal annars fyrir sér hvort það væri leið til að „veiða almenning í net útgerðarfyrirtækja“ í því skyni að ná sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið. VR skipar fjóra af átta stjórnarmönnum Lífeyrissjóðs verzlunarmanna en stjórnendur sjóðsins fóru í þetta sinn ekki að ráðum Ragnars og fjárfestu í útboðinu.

Þetta var í annað sinn sem Ragnar beitir sér gegn þátttöku LIVE í hlutafjárútboði en sumarið 2020 sendi stjórn VR frá sér yfirlýsingu þar sem þeim tilmælum var beint til stjórnarmanna sem VR skipar í stjórn lífeyrissjóðsins að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í útboði Icelandair sem fór fram í september sama ár. Yfirlýsingin var síðar dregin til baka.

Í fjárfestakynningu vegna útboðs Síldarvinnslunnar kom fram að stjórnendur félagsins áætli að árið 2021 muni verða það besta í mörg ár og að EBITDA-hagnaður muni nema á bilinu 9 til 10 milljörðum króna. Þá er stefnt að því að 30 prósent hagnaðar verði greidd út í arð til hluthafa á hverju ári en eiginfjárhlutfall félagsins var 68 prósent í árslok 2020.