Gildi lífeyrissjóður, næststærsti hluthafi Skeljungs með um tíu prósenta hlut, ætlar ekki að samþykkja yfirtökutilboð sem fjárfestingafélagið Strengur – sem hjónin Ingibjörg Pálmadóttur og Jón Ásgeir Jóhannesson og Sigurður Bollason fara meðal annars fyrir – hefur gert í allt útistandandi hlutafé félagsins.

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, segir í samtali við Fréttablaðið að „aðalástæðan fyrir þeirri ákvörðun sjóðsins er sú að við teljum verðið vera of lágt.“ Yfirtökutilboðið, sem rennur út í fyrstu viku nýs árs, var sett fram 9. nóvember og hljóðaði upp á 8,315 krónur á hlut, en við lokun markaða í gær stóð gengið í 8,65 krónum.

„Við teljum,“ útskýrir Árni, „að það séu ýmis tækifæri til staðar í félaginu og það liggja fyrir tvö sjálfstæð verðmöt sem gefa til kynna að virði Skeljungs sé talsvert meira en felst í yfirtökutilboðinu.“

Árni segir að sú kynning sem Strengur hafi birt á yfirtökutilboði sínu í Skeljung „sé að mati sjóðsins ekki trúverðug og gefi ekki rétta mynd af stöðu og rekstrarhorfum félagsins. Þannig er til dæmis ekkert vikið að því hvaða áhrif ­faraldurinn hefur haft á reksturinn á árinu.“

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildi lífeyrissjóðs.
Fréttablaðið/Heiða

Í greinargerð sem þrír óháðir stjórnarmenn Skeljungs birtu vegna yfirtökutilboðs Strengs á mánudag kom fram að stjórnin teldi nær ómögulegt að leggja sérstakt mat á það hvort vænlegt sé fyrir einstaka hluthafa að samþykkja tilboðið eða hafna því. Hver og einn hluthafi yrði að meta með sjálfstæðum hætti tilboðsverðið og eftir atvikum leita sér sérfræðiráðgjafar.

Árni gagnrýnir greinargerðina og telur að ekki sé verið að gæta nægjanlega vel að hagsmunum allra hluthafa, eins og stjórnarmönnunum ber að gera.

„Stjórnin hefði mátt koma með betra, sjálfstætt mat sitt á tilboðinu og þannig gæta að jafnræði hluthafa gagnvart upplýsingum. Svona vinnubrögð eru að okkar mati ekki til þess fallin að auka tiltrú almennings á hlutabréfamarkaði þegar gerð eru yfirtökutilboð í skráð félög.“

Spurður hvernig Gildi sjái fyrir sér framhaldið, verandi hluthafi í félagi þar sem einn fjárfestahópur kann mögulega að ráða yfir 50 prósenta hlut, segir Árni erfitt að segja fyrir um það á þessari stundu.

Á meðal yfirlýstra áforma Strengs er að Skeljungur verði skráður af markaði. „Við munum klárlega leggjast gegn því að félagið verði tekið af hlutabréfamarkaði.“