Lífeyrissjóðurinn Gildi telur það vera afturför að Skeljungur hafi fækkað kynningarfundum með fjárfestum í kjölfar ársfjórðungsuppgjöra úr fjórum sinnum á ári í tvisvar á ári. „Slíkir fundir eru helsti vettvangur fjárfesta til að fræðast um og fylgjast með stöðu félagsins. Almennt hefur skapast sú hefð á innlendum hlutabréfamarkaði að hverju árshlutauppgjöri sé fylgt úr hlaði með fjárfestafundi. Á þeirri vegferð umbreytinga sem Skeljungur er á nú er enn mikilvægara en ella að öllum hluthöfum sé veittur sami aðgangur að upplýsingum um framvindu innan félagsins, helst með gagnvirkum hætti,“ segir Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar og staðgengill framkvæmdastjóra Gildis. Gildi er næststærsti hluthafi Skeljungs með tíu prósenta hlut.

Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar og staðgengill framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins Gildis.

Skeljungur upplýsti um það eftir lokun markaða á fimmtudag, samhliða birtingu uppgjörs, að ákveðið hafi verið að fækka kynningarfundum með fjárfestum. Þess vegna verði ekki haldnir kynningarfundir vegna uppgjörs á fyrsta og þriðja ársfjórðungi í ár. Öðrum og fjórða ársfjórðungi verði gerð skil á kynningarfundum.

Fjárfestahópur með Jón Ásgeirs Jóhannesson, stofnanda Bónus, í stafni stefndi að því að yfirtaka Skeljungs í vetur og skrá af markaði. Það tóku ekki nógu margir hluthafar yfirtökutilboðinu til að svo yrði en nú á fjárfestingafélagið Strengur 50,06 prósenta hlut í fyrirtækinu.

Jón Skaftason, framkvæmdastjóri Strengs, sagði í samtali við Markaðinn í nóvember að ljóst væri að rekstur Skeljungs muni taka grundvallarbreytingum á næstu árum. Tækniþróun væri hröð, rafbílum fjölgi á götunum og fyrir liggi að stjórnvöld stefni að því að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa á markaðnum.

„Verkefni næstu ára hjá Skeljungi er að gera félagið betur í stakk búið til að takast á við miklar breytingar. Félagið mun ekki geta reitt sig á tekjur af bensínsölu á neytendamarkaði til eilífðarnóns,“ sagði hann

Jón Skaftason, framkvæmdastjóri Strengs. Strengur á 50,1 prósenta hlut í Skeljungi.

„Félagið mun ekki geta reitt sig á tekjur af bensínsölu á neytendamarkaði til eilífðarnóns.“

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, sagði í tilkynningu með uppgjörinu á fimmtudag að í ljósi orkuskipta muni Skeljungur „minnka áhættu í hefðbundinni sölu eldsneytis“. Það kunni að leiða til þess að félagið fjárfesti í einhverju ótengdu eldsneytissölu eða selji frá sér eitthvað sem tengist eldsneytissölu.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn er þriðji stærsti hluthafi Skeljungs með átta prósenta hlut. Hjörleifur Arnar Waagfjörð, forstöðumaður eignastýringu fagfjárfesta hjá Arion sem sinnir meðal annars eignastýringu fyrir Frjálsa lífeyrissjóðinn, segir að hann telji að upplýsingagjöf Skeljungs sé fullnægjandi þrátt fyrir að ekki séu haldnir kynningarfundir með öllum uppgjörum. Starfsmenn eignastýringarinnar séu í reglulegu í sambandi við þau félög sem séu í eignsafninu. Ef talin sé þörf á tilteknum upplýsingum sé óskað eftir þeim.

Mogens Gunnar Mogensen, forstöðumaður hlutabréfastýringar hjá Íslandssjóðum, segir að það sé aldrei af hinu góða þegar fyrirtæki draga úr upplýsingagjöf til hluthafa. „Fram að þessu hafa nær öll fyrirtæki á aðallista Kauphallarinnar haldið kynningarfundi fyrir hluthafa fjórum sinnum á ári í tengslum við ársfjórðungsleg uppgjör, ef frá eru taldir Hagar sem héldu lengi vel bara tvo fundi á ári. Það mæltist hins vegar ekki vel fyrir hjá markaðsaðilum og því hafa Hagar nýlega ákveðið að halda ársfjórðungslega fundi eins og venjan er. Þetta er því mikil afturför hjá Skeljungi að fækka fundum og tel ég það ekki góða þróun ef það er vilji félagsins að vera skráð á markað,“ segir hann.

„Þetta er því mikil afturför hjá Skeljungi að fækka fundum“

Mogens Gunnar bendir á að minni upplýsingagjöf tengist hins vegar breyttum áherslum ráðandi hluthafa í Skeljungi. Stutt sé síðan að Strengur hafi eignast nauman meirihluta í félaginu.

„Strengur lýsti því yfir í tengslum við yfirtökutilboð sitt að vilja afskrá félagið af markaði en þeirra eignarhlutur í dag dugir hins vegar ekki til að fara í þá vegferð og að öllu óbreyttu verður félagið áfram skráð á markað,“ segir hann.

Mogens Gunnar Mogensen, forstöðumaður hlutabréfastýringar hjá Íslandssjóðum.
Mynd/Aðsend

Mogens Gunnar nefnir að á meðan Skeljungur sé skráð á hlutabréfamarkað sé því skylt að birta ársfjórðungsleg uppgjör þrátt fyrir að einungis tveir kynningarfundir séu haldnir á ári. „Eins og venja er ættu markaðsaðilar að geta óskað eftir fundi með stjórnendum félagsins til að ræða uppgjör þess,“ bendir hann á.

Sveinn Þórarinsson, greinandi hjá Landsbankanum.
Mynd/Aðsend

Sveinn Þórarinsson, greinandi hjá Landsbankanum, segir að það sé í sjálfu sér í lagi að Skeljungur hafi fækkað kynningarfundum. Hagar hafi haft sama háttinn í mörg ár. „Skeljungur er með minni félögum á markaði og aðgangur að stjórnendum ágætur. Áhugi á rekstrinum þeirra hefur dvínað og þeir á ákveðinni vegferð. Önnur félög myndu líklega ekki komast upp með þetta,“ segir hann.

Magnús Örn Guðmundsson, forstöðumaður hlutabréfa og blandaðra sjóða hjá Stefni, bendir á eins og fleiri hafa gert, að það sé ekki algilt að fyrirtæki sem skráð séu á hlutabréfamarkað haldi kynningarfund með fjárfestum fjórum sinnum á ári. Hagar hafi nýlega tekið upp á því að halda fundina fjórum sinnum á ári efir að hafa látið nægja að gera það tvisvar á ári um árabil.

Magnús Örn Guðmundsson, forstöðumaður hlutabréfa og blandaðra sjóða hjá Stefni.
Mynd/Aðsend

„Almennt eru kynningarfundir upplýsandi og gefa hluthöfum og fjárfestum tækifæri til að fá skýrari mynd af uppgjörinu og fréttum. Enn fremur eru þeir góður vettvangur fyrir stjórnendur að koma skilaboðum betur á framfæri við markaðinn. Fundirnir eru þó misjafnir eins og gengur og gerist,“ segir hann.