Tæp­lega 70 prósent fleiri sóttu um at­vinnu­leysis­bætur í Bret­landi í apríl en í mars en um er að ræða mestu aukningu í at­vinnu­leysis­bóta­kröfum frá því skráningar hófust í Bret­landi snemma á áttunda ára­tugnum. Búist er við að at­vinnu­leysi muni aukast enn meira á næstu mánuðum.

Að því er kemur fram í frétt Guar­dian um málið sóttu rúm­lega 856 þúsund manns um bætur í apríl og hafa nú 2,1 milljón manns sótt um bætur allt í allt en það er í fyrsta sinn frá árinu 1996 sem fjöldinn fer yfir tvær milljónir. Bretar glímir nú við ein­hverja dýpstu kreppu sem landið hefur séð.

At­vinnu­leysi eykst nú mest á svæðum sem voru í slæmri stöðu fyrir en mesta aukningin í at­vinnu­leysis­bóta­kröfum var í norður­hluta Eng­lands og Norður-Ír­landi. Til að mynda er einn af hverjum níu nú at­vinnu­laus í Black­pool en at­vinnu­leysi var um sjö prósent þar í mars.

Meiri aukning ef ekki væri fyrir aðgerðir stjórnvalda

Að mati hag­fræðinga hefðu tölu­vert fleiri þurft að nýta sér at­vinnu­leysis­bætur ef ekki væri fyrir að­gerðir stjórn­valda en talið er að um átta milljón störf hafi verið varin þar sem stjórn­völd greiddu 80 prósent af launum starfs­manna, allt að 2.500 pund eða tæp­lega 440 þúsund krónur.

Alls hafa hátt í 250 þúsund manns smitast af kórónaveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdóminum í Bretlandi og tæplega 35 þúsund látist en Bretar hafa lent verst í kórónaveirufaraldrinum miðað við aðrar Evrópuþjóðir.

Atvinnuleysisbótakröfur síðustu tólf ára.
Skjáskot/ONS