Yfir 14.000 manns eru í ein­angrun eða sótt­kví um þessar mundir og hefur það aukið á­lagið á heim­sendingum eftir matar­vörum til muna.

Ásta Sig­ríður Fjeld­sted, fram­kvæmda­stjóri Krónunnar, segir að allur auka mann­skapur hafi verið kallað út til að sinna heims­endingar­þjónustu Krónunnar.

„Ég er í þessum töluðu orðum að skanna inn fyrir heim­sendingu. Ég er hérna í Lindunum að vinna við tínslu fyrir snjall­verslunina,“ segir Ásta létt.

Sam­kvæmt vef­síðu Krónunnar er næsti af­hendingar­dagur á matvælum 3. janúar en Ásta segir að unnið sé úr því að ná því niður.

„Ég hef ekki alveg tölu á því hvernig staðan er en við erum mætt hér mörg af skrif­stofunni til þess að tína saman vörur. Við höfum stillt þetta þannig að við opnum ekki fyrir meira en við ráðum við. Við viljum tryggja að allir sem hafa pantað fái sínar vörur af­hentar,“ segir Ásta.

„Far­aldurinn er að kenna Ís­lendingum nýja verslunar­hætti“

Ásta býst ekki við því að þetta álag sé komið til að vera en fagnar því að fólk sé að átta sig á heims­endingar­þjónustunni. Það kom hol­skefla af pöntunum rétt fyrir jól meiri en nokkur átti von á og hefur Krónan því kallað út allt til­tæk fólk.

„Ef þetta verður fram­haldið þurfum við að bæta enn frekar í sér­stak­lega á meðan svona margir eru í sótt­kví. Við erum að vinna í því að ráða fleira fólk“

„Þetta gerist þegar smit­tölur fara svona upp og margir að lenda í sótt­kví þá eflist verslun á þennan máta gífur­lega mikið. Við sjáum það alveg að far­aldurinn er búinn að kenna Ís­lendingum nýja verslunar­hætti,“ segir Ásta að lokum.

Ásta Sigríður, Jón Ingi Einarsson sem vinnur einnig á skrifstofu Krónunnar og dóttir hans Embla Rakel Bergmann Jónsdóttir.
Ljósmynd/aðsend