Seðlabanki Íslands hefur heimild til þess að kaupa ríkisskuldabréf á markaði fyrir 150 milljarða króna, að sögn Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra. Hann segir unnið að útfærslu kaupanna í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðuneytið og ríkisstjórnina.

Fram kom í máli seðlabankastjóra á fundi í Seðlabankanum í morgun að 150 milljarða króna heimild bankans - sem næmi um fimm prósentum af landsframleiðslu - væri mun lægri en sambærileg heimild margra annarra erlendra seðlabanka. Ekki væri búið að útfæra með hvaða hætti bankinn myndi standa að kaupunum.

„Markmiðið er að tryggja að markmið peningastefnunnar um lægri vexti nái fram að ganga,“ sagði Ásgeir um kaupin.

Ásgeir benti á að í ljósi þess að ríkissjóður myndi þurfa aukið fjármagn til þess að fjármagna aukin útgjöld vegna kórónaveirunnar væri fyrirsjáanlegt að ríkisbréfaútgáfa yrði aukin.

„Ákvörðunin er að einhverju leyti tekin til þess að koma í veg fyrir að langtímakrafan hækki verulega í kjölfarið. Það myndi setja í hættu þau markmið sem við erum með varðandi slökun peningastefnunnar,“ sagði Ásgeir.

Kaupum Seðlabankans á ríkisskuldabréfum væri þannig ætlað að tryggja framgang peningastefnunnar á markaði og ganga úr skugga um að áhættulausir vextir hækkuðu ekki verulega. „Að tryggja að heimili og fyrirtæki geti notið lágra langtímavaxta í gegnum þetta áfall,“ sagði Ásgeir.

Aðgerðin væri til þess fallin að auðvelda ríkissjóði að fjármagna fyrirséð útgjöld, þó svo að það væri ekki beinlínis markmið hennar.

„Ríkissjóður er reyndar með góða lausafjárstöðu. Það er engin sérstök vá fyrir dyrum en þetta mun þá gera það að verkum að beiting ríkisfjármálastefnunnar verður auðveldari,“ sagði seðlabankastjóri.