Herdís Pála Pálsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Deloitte, segir að kominn sé tími til að endurhugsa flest það sem snýr að vinnu og hvar og hvernig við vinnum. „Það virðist almenn bylgja í gangi varðandi breyttar hugmyndir um vinnu, vinnustaði og vinnumarkaðinn almennt. Við vinnum of mikið eftir gömlum módelum; jafnvel frá tíma annarrar iðnbyltingar þegar við höfum stigið skrefið inn í fjórðu iðnbyltingna.“

Þetta kemur fram í þættinum Stjórnandinn með Jóni G. á Hringbraut en þátturinn er á dagskrá stöðvarinnar kl. 19 í kvöld, laugardagskvöld.

Herdís skrifaði bókina Völundarhús tækifæranna ásamt Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur, dósent við HÍ. Bókin kom út á dögunum og er merkt rit um gjörbreyttan vinnumarkað. Núna er í vaxandi mælir horft meira á verkefnin og hvaða árangri starfsmenn ná fremur en hvort þeir séu í vinnunni frá til dæmis níu til fimm. Eða vinni til dæmis ósamfelldan vinnudag og þess vegna átta mánuði á ári?

„Tæknin býður upp á það að við hugsum þetta algjörlega upp á nýtt. Þannig að við getum hætt að taka undir með Dolly Parton í laginu nine to five. Það er hollt að spyrja sig hvers vegna við nálgumst hlutina eins og alltaf hefur verið gert? Hvers vegna vinnur fólk frá níu til fimm? Af hverju vinnur það fimm daga vikunnar?

Okkur finnst það svolítil tímaskekkja að mæla vinnumarkaðinn út frá fjölda vinnustunda á vinnustaðnum. Það þarf ekki að vera fylgni á milli viðveru í vinnustað og raunverulegs árangurs,“ segir Herdís Pála Pálsdóttir.