Megingallinn við aðgerðir ríkisstjórnarinnar er að þær fela í sér frestanir og deyfingar á vanda,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Eina leiðin til að takast á við stórfellda skuldaaukningu ríkissjóðs á liðnu ári sé að stuðla að hagvexti, svo að tekjur ríkissjóðs aukist á ný.

„Við getum ekki skattlagt okkur út úr þessum vanda,“ sagði Sigmundur í sjónvarpsþætti Markaðarins á Hringbraut sem var sýndur síðastliðið miðvikudagskvöld. Sigmundur sagði einnig að rétt hefði verið að keyra ríkissjóð í miklum halla á síðasta ári.

„Þessi hundraða milljarða skuldaaukning mun hafa áhrif á framhaldið en sem betur fer var ríkissjóður vel í stakk búinn fyrir [mikinn hallarekstur, innsk. blm.] ... Það er reyndar orðið ríkjandi viðhorf í mörgum stjórnmálaflokkum í dag að skattlagning búi til verðmæti. Menn taka ákvarðanir og móta stefnu út frá þeirri forsendu að skattlagning búi til verðmæti,“ sagði Sigmundur.

Formaðurinn nefndi einnig að mikilvægt væri að einfalda skattkerfið og auðvelda fólki að stofna fyrirtæki. Nefndi hann þar sérstaklega lækkun tryggingagjalds, sem verkaði sem neikvæður hvati á rekstur og drægi úr mannaráðningum. Hann sagðist vilja leggja áherslu á að styðja smá og meðalstór fyrirtæki: „Þannig verða verðmætin til,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.