Hampiðjan vinnur að því að þróa tækni ásamt Stjörnu-Odda sem gerir það að verkum að hægt verði að veiða einungis tiltekna tegund af fiski af tiltekinni stærð en ekki taka við öllu því sem fer í trollið. „Þetta verður bylting í veiðum,“ segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, í samtali við Markaðinn. „Vonandi verðum við komin með frumgerð eftir þrjú til fimm ár. Þetta er langhlaup.“

Hjörtur segir að það sem hafi staðið tækni sem þessari fyrir þrifum sé hve flutningsgeta gagnakapla sem nýttir hafi verið á sjó sé lítil. Þeir hafi verið úr kopar og það taki nokkrar mínútur fyrir óskýra svarthvíta mynd að komast upp í brúna. „Skipstjórnarmenn sjá því ekki hvað veitt er í rauntíma. Hampiðjan hefur þróað ljósleiðarakapal sem getur flutt heila bíómynd á tveimur til þremur sekúndum. Það er því hægt að hafa margar myndavélar og sjá nákvæmlega hvað kemur í trollið í rauntíma,“ segir hann og nefnir að kapallinn beri nafnið DynIce Optical Data.

„Fyrir skemmstu hófum við tilraunaveiðar með Frá VE-78 í Vestmannaeyjum. Það var fyrst og fremst gert til að sjá hve góðum myndum af fiskum við næðum neðansjávar svo hægt væri að þróa áfram búnað til að tegundagreina þá. Það er komin mikil þekking á myndgreiningartækni. Við viljum beita henni til þess að greina fisktegundir. Í ljósi stóraukins samskiptahraða á kaplinum verður hægt að senda myndskeið um borð í skipið þar sem tölvan ákveður hvaða fisk eigi að veiða og hverjum eigi að sleppa. Þau skilaboð verða send samstundis í trollið,“ segir hann.

„Við setjum ljósleiðara á spil um borð í skip sem nær niður í trollið,“ segir Hjörtur.
Mynd/Aðsend

Það hefur tekið töluverðan tíma að þróa kapal sem ræður við mikið gagnamagn. „Ljósleiðari er glerþráður, gjarnan klæddur í stífa stálkápu svo það komi ekki beygja á hann því þá brotnar hann. Alla jafna eru þeir plægðir í jörðina og þar haldast þeir kyrrir í áratugi,“ segir Hjörtur og nefnir að aðstæður á sjó séu allt aðrar og erfiðari.

„Við setjum ljósleiðara á spil um borð í skip sem nær niður í trollið. Ljósleiðarinn getur því titrað eftir því hvernig hafstraumar liggja og hann þarf að þola stöðugt átak. Stundum lítið og stundum mikið. Það er einstakt að okkur hafi tekist að þróa ljósleiðarakapal sem getur ráðið við þessar aðstæður,“ segir hann og nefnir að Hampiðjan hljóti að teljast sá kaðlaframleiðandi sem búi yfir mestri tæknilegri getu og að kapallinn sé einkaleyfisvarinn.

Ljósleiðarakapallinn hefur verið prófaður í samstarfi við Síldarvinnsluna um borð í uppsjávarskipinu Beiti og þær tilraunir hafa leitt í ljós að nauðsynlegt er að hanna sérstakar vindur fyrir kapalinn því ljósleiðarakaplar þola það illa að þeim sé vafið í mörgum lögum á spil. „Vindurnar þurfa því að vera öðruvísi útbúnar og vera breiðari og með stærri kjarna,“ segir Hjörtur.

Hafið þið tilfinningu fyrir því hve eftirspurn af vörunni verður í framtíðinni?

„Það fást mikilvægar upplýsingar fyrir skipstjórnarmenn með því að sjá hvaða fiskur er að koma inn í trollin í rauntíma. Þá vita þeir til dæmis hvort ýsa hafi veiðst, hvort mikið af smáfiski sé með aflanum eða jafnvel hvort ekkert hafi fiskast. Þessi tækni mun gera það að verkum, eins og með annan tölvubúnað, að um leið og hún er komin til sögunnar mun skapast veruleg eftirspurn eftir henni. Tæknin mun auka hagræði í rekstri útgerða verulega.“

„Ljósleiðarinn getur því titrað eftir því hvernig hafstraumar liggja og hann þarf að þola stöðugt átak. Stundum lítið og stundum mikið. Það er einstakt að okkur hafi tekist að þróa ljósleiðarakapal sem getur ráðið við þessar aðstæður,“ segir Hjörtur.
Mynd/Aðsend

Skiptir það máli fyrir umhverfið að ekki sé verið veiða fisk sem á ekki að veiða og fleira?

„Það skiptir miklu máli fyrir umhverfið og umgengni um fiskistofna að geta hugsanlega valið í framtíðinni þann fisk sem á að veiða og sleppa öðrum, til dæmis þeim sem enn eru of litlir. Það má líkja þessu við gróðurhús þar sem einungis eru tíndir rauðir þroskaðir tómatar en beðið með að taka þá litlu og grænu. Því væri hægt að bíða með að veiða minni fiskana þar til þeir hafa vaxið nægilega þannig að þeir séu hæfir til nýtingar og eins yrði hægt að sleppa þeim tegundum sem ekki er vilji til að taka.“

Fengu styrk frá Tækniþróunarsjóði

Hafrannsóknarstofnunin ásamt Stjörnu-Odda og Hampiðjunni fengu styrk frá Tækniþróunarsjóði til að þróa myndgreininguna og Hampiðjan sér um að hanna veiðarfærið utanum Fiskvalann, en það nefnist búnaðurinn sem notaður er við myndatökuna. „Við höfum í áratugi unnið með Hafró og þekkt Stjörnu-Odda frá stofnun þess félags og dáðst að þeirra tæknilegu getu og það er ánægjulegt að vinna með þeim að þessu metnaðarfulla verkefni,“ segir Hjörtur.

Hampiðjan er skráð á First North-hliðarmarkað Kauphallarinnar. Hlutabréfin hafa hækkað um 90 prósent á tólf mánuðum og 24 prósent það sem af er ári.