Evrópsk flug­mála­yfir­völd gera ráð fyrir því að 737 MAX flug­vélar Boeing geti verið komnar í loftið að nýju nú í janúar, að því er fram kemur á vef Reu­ters.

Vélarnar hafa verið kyrr­settar frá því í mars á þessu ári eftir tvö mann­skæð flug­slys sem rakin hafa verið til hug­búnaðar vélanna. Flug­véla­risinn hefur undan­farna mánuði unnið að endur­bótum í sam­starfi við banda­rísk og evrópsk flug­mála­yfir­völd. Greint var frá því á dögunum að Boeing starfs­menn hefðu vitað af göllunum árið 2016.

Í frétt Reu­ters kemur fram að gert sé ráð fyrir því að vélarnar fari í til­rauna­flug í desember. Gert er ráð fyrir því að evrópsk flug­mála­yfir­völd verði í nánu sam­starfi við þau banda­rísku og reynt verður að lág­marka þann tíma sem mun líða á milli þess að vélunum verður leyft að fljúga að nýju í Evrópu og í Banda­ríkjunum.

„Fyrir mér verður þetta í byrjun næsta árs ef allt gengur upp,“ segir Pat­rick Ky, yfir­maður hjá evrópsku flug­mála­stofnuninni. „Við göngum út frá því að taka vélarnar í til­rauna­flug um miðjan desember sem þýðir að við munum taka á­kvörðun um endur­komu vélanna í janúar.“