Gangi áform forsvarsmanna og ráðgjafa WOW air um endurskipulagningu flugfélagsins eftir er gert ráð fyrir að lausafjárstaða félagsins verði orðin jákvæð um meira en níu milljónir dala, jafnvirði 1,1 milljarðs króna, um mitt næsta ár. Til samanburðar er hún sem stendur neikvæð um 11 milljónir dala og er búist við að hún versni enn frekar og verði, að öðru óbreyttu, tæpar 45 milljónir dala í lok annars fjórðungs ársins.

Þetta kemur fram í drögum að kynningu á endurskipulagningu WOW air sem Markaðurinn hefur undir höndum. Áætlanir félagsins hafa verið kynntar fjárfestum, innlendum sem erlendum, á undanförnum dögum af Arctica Finance, ráðgjafa flugfélagsins, og starfsmönnum fjárfestingarbankasviðs Arion banka.

Áform stjórnenda WOW air miða að því að breyta skuldum þess við skuldabréfaeigendur og aðra lánardrottna upp á samanlagt 120,4 milljónir dala, jafnvirði um 14,6 milljarða króna, í hlutafé og gefa í kjölfarið út ný forgangshlutabréf fyrir 40 milljónir dala, sem jafngildir 4,8 milljörðum króna, til þess að fullfjármagna rekstur flugfélagsins.

Í tilkynningu sem WOW air sendi frá sér í gær kom fram að formlegar viðræður væru hafnar við fjárfesta um að leggja því til nýtt hlutafé. Þær viðræður beinast meðal annars að Indigo Partners, samkvæmt heimildum Markaðarins, en fyrir tæpri viku var greint frá því að bandaríska félagið væri hætt við að fjárfesta í WOW air fyrir allt að 90 milljónir dala, jafnvirði 10,5 milljarða króna.

Í kjölfar umræddrar niðurskriftar á skuldum WOW air verða vaxtaberandi skuldir félagsins 6,6 milljónir dala og verður eiginfjárhlutfall þess 20 prósent, að því er fram kemur í kynningunni.

Fjárfestirinn sem mun leggja flugfélaginu til 40 milljónir dala í nýtt hlutafé mun eignast 51 prósents hlut í félaginu sem og forgangsrétt að arðgreiðslum og öðrum útgreiðslum félagsins. Á móti munu skuldabréfaeigendur og lánardrottnar félagsins fara með 49 prósenta hlut í því.

Í áðurnefndri kynningu er tekið fram að umrædd fjárhæð, 40 milljónir dala, byggi á endurskoðaðri viðskiptaáætlun flugfélagsins og sé enn fremur háð því að skuldir félagsins verði endurskipulagðar og að lausafjárstaðan fari ekki undir níu milljónir dala.

Eigendur skuldabréfa WOW air, sem samþykktu í gær að breyta kröfum sínum á hendur félaginu í hlutafé, munu eignast 23 prósenta hlut í félaginu og aðrir lánardrottnar 26 prósenta hlut en í áætlun flugfélagsins er gert ráð fyrir að allir lánardrottnarnir, þar á meðal Arion banki og Isavia, samþykki að breyta kröfum sínum í hlutafé.

Óvíst er hvort Isavia – en WOW air skuldar ríkisfyrirtækinu um 1,8 milljarða króna – muni fallast á slíka ráðstöfun, að sögn þeirra sem þekkja vel til mála, en það er sem stendur til skoðunar hjá fyrirtækinu. Ekki hafði fengist formlegt samþykki frá öllum lánardrottnunum í gær, eftir því sem Markaðurinn kemst næst, en fastlega er búist við því að flestir þeirra muni samþykkja tillögur flugfélagsins.

Auk Arion banka og Isavia eru stærstu lánveitendur WOW air flugvélaleigurnar Avolon, sem á 16 milljóna dala kröfur á hendur félaginu, og Air Lease Corporation en kröfur þess gagnvart félaginu standa í um 13,6 milljónum dala, samkvæmt upplýsingum sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Þá hefur Airport Associates, sem þjónustar WOW air á Keflavíkurflugvelli, þegar samþykkt að fella niður 1,6 milljóna dala kröfur sínar á hendur flugfélaginu og leggja félaginu til nýtt hlutafé að samsvarandi fjárhæð.

Samkvæmt áætlunum forsvarsmanna WOW air verður víkjandi láni sem Títan fjárfestingafélag, móðurfélag WOW air, hefur veitt flugfélaginu auk þess breytt í hlutabréf sem verða án atkvæðisréttar. Lánið stendur í um 6,3 milljónum dala, jafnvirði 760 milljóna króna.
kristinningi@frettabladid.is / hordur@frettabladid.is