Martin J. St. George, framkvæmdastjóri hjá flugfélaginu LATAM Airlines Group, hefur dregið framboð sitt til stjórnar Icelandair Group til baka. Nú bjóða átta manns sig í fimm manna stjórn á aðalfundi flugfélagsins á morgun.

Kostnaðarvandi

Hann sagði við Markaðinn, áður en hann dró framboðið til baka, að vandi Icelandair fyrir COVID-19 hafi falist í of miklum kostnaði en ekki of lágum tekjum. „Áður en ég kynnti mér málið taldi ég að vanda Icelandair á árunum 2018 og 2019 mætti rekja til aukinnar samkeppni við WOW air. Þegar rýnt er í reksturinn kemur í ljós að vandinn liggur ekki á tekjuhliðinni heldur er um kostnaðarvanda að ræða,“ sagði hann og nefndi að auðveldara sé að draga úr kostnaði en að auka tekjur.

George hefur starfað hjá flugfélögum í um þrjá áratugi, þar á meðal hjá Norwegian og JetBlue.

Leggja til óbreytta stjórn

Tilnefningarnefnd, sem skipuð er fyrir stjórnarkjör, leggur til að stjórn Icelandair verði óbreytt á milli ára. Stjórnina skipa:

Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair. Hann er forstjóri Toyota á Íslandi.

Svafa Grönfeldt, varaformaður stjórnar Icelandair. Hún situr í stjórn MIT DesignX sem er viðskiptahraðall hjá MIT háskólanum í Boston og meðstofnandi sprotasjóðsins MET sem er með aðsetur í Cambridge. Hún var áður framkvæmdastjóri hjá Alvogen, aðstoðarforstjóri Actavis Group og rektor Haskóla Reykjavíkur.

Guðmundur Hafsteinsson, fyrrverandi yfirmaður vöruþróunar Google Assistant.

John F. Thomas, ráðgjafi hjá McKinsey & Co og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Virgin Australia Airlines.

Nina Jonsson, ráðgjafi hjá Plane View Partners og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Air France-KLM.

Í tilnefningarnefnd sátu Helga Árnadóttir, Hjörleifur Pálsson og Úlfar Steindórsson.

Steinn Logi og Þórunn í framboði

Aðrir frambjóðendur eru Steinn Logi Björnsson, fyrrverandi forstjóri fraktflutningafélagsins Bláfugls og fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Icelandair og Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands.

Pálmi Haraldsson á Ferðaskrifstofu Íslands og er einn stærsti einkafjárfestirinn í íslenska flugfélaginu með að minnsta kosti tveggja prósent hlut í gegnum félagið Sólvelli en einnig á hann hlut í gegnum Ferðaskrifstofu Íslands. Ljóst er að Pálmi vill sjá breytingar á stjórn Icelandair á aðalfundinum.

Þórunn hefur starfað sem stöðvarstjóri Icelandair á Kastrup í Kaupmannahöfn, hótelstjóri Hótel Loftleiða í þrjú ár og stýrði síðar sölumálum Hertz bílaleigunnar um sex ára tímabil þegar það var í eigu Icelandair. Hún hefur jafnframt starfað sem Iceland Express og sem forstjóri ferðaskrifstofunnar Destination Europe í Bandaríkjunum.

Þórunn bauð sig fram til stjórnar Icelandair í mars 2019 en náði ekki kjöri.

Aðrir stórir einkafjárfestar í Icelandair Group, hjónin Bogi Þór Siguroddsson og Linda Björk Ólafsdóttir, sem eiga um 2,3 prósenta hlut í gegnum félagið Bóksal, styðja hins vegar óbreytta stjórn undir áframhaldandi formennsku Úlfars Steindórssonar.

Guðmundur Hafsteinsson, stjórnarmaður í Icelandair Group, hefur sagt við Fréttablaðið að núverandi stjórn sé að hluta til skipuð fólki með víðtæka alþjóðlega reynslu af flugrekstri. Hann nefndi sérstaklega John F. Thomas og Ninu Jonsson í því samhengi en þau komu ný inn í stjórnina á síðasta ári.

„Þau hafa reynst félaginu ómetanlega og eru rétt að byrja. Það er sjaldgæft að íslenskt fyrirtæki hafi aðgang að jafn víðtækri og alþjóðlegri reynslu eins og er í núverandi stjórn,“ sagði Guðmundur.