Georg Haraldsson, sem hefur starfað sem forstöðumaður stafrænnar þjónustu Íslandspósts síðan síðasta sumar, hefur verið ráðinn forstöðumaður stafrænna lausna og upplýsingatækni hjá fyrirtækinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandspósti. Þar segir að skipulagsbreytingin hafi þegar tekið gildi og mun Georg einnig bera ábyrgð á upplýsingatækni fyrirtækisins.

„Við erum stanslaust að vinna að því að sníða fyrirtækið að raunaðstæðum í rekstrarumhverfinu en með þessum breytingum náum við fram auknum slagkrafti í upplýsingatæknimálunum okkar auk þess að leggja enn meiri áherslu á stafrænu vegferðina mikilvægu,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts, í tilkynningunni.

„Með þessum breytingum erum við að fækka enn meira í hópi yfirstjórnenda og lækka þar með launakostnað félagsins og minnka yfirbyggingu. Pósturinn hefur þurft að kveðja margt gott fólk á liðnum mánuðum og það er mikilvægt að sú hagræðing komi fram á öllum stigum fyrirtækisins og að við séum stanslaust að vinna að hagræðingu og umbótum.

Við höfum náð nokkuð góðum tökum á fjárhagslegum hliðum rekstrarins en stóra verkefnið á þessu ári er að stórbæta þjónustu til viðskiptavina okkar en þar spila upplýsingatækni og stafrænar lausnir algjört lykilhlutverk. Pósturinn hefur á að skipa gríðarlega öflugu teymi sérfræðinga á þessum sviðum og ég efast ekki um að Georg mun koma sterkur inn sem leiðtogi í þann hóp og keyra málin áfram,“ segir Birgir enn fremur.

Georg segir mikinn heiður að vera treyst fyrir þessu hlutverki á þeim spennandi tímum sem framundan séu hjá Íslandspósti.

„Félagið er að fara í gegnum ákveðið breytingaferli þar sem áhersla verður lögð á viðskiptavinamiðaðar lausnir sem eru byggðar á sjálfvirknivæðingu og nýjustu tækni. Við sjáum fram á spennandi tíma með viðskiptavinum okkar þar sem við munum kynna mikið af nýjum lausnum á næstunni sem munu gera viðskipti við Póstinn ánægjulegri og færa okkar hratt inn í framtíðina,“ er haft eftir Georgi í tilkynningunni.

Georg kom til Íslandspósts síðasta sumar frá Iceland Travel þar sem hann gegndi hlutverki forstöðumanns viðskiptastýringar. Áður var Georg búsettur í Dubai, þar sem hann starfaði sem framkvæmdastjóri Marorku í Miðausturlöndum og leiddi þar uppbyggingu félagsins á fjarmörkuðum. Georg hefur einnig starfað við stafræna þróun hjá Völku, Iceland Express og Dohop. Hann er tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er einnig með meistaragráðu í alþjóða-viðskiptum frá HR og IE Business School.