Gjaldmiðill Líbanons hefur lækkað um 20 prósent frá áramótum miðað við Bandaríkjadal á svörtum markaði. Það gengi er 85 prósent lægra en opinbert gengi segir til um. Gengishrunið hefur leitt til mótmæla þar sem mótmælendur hafa kveikt í ruslagámum og lokað vegum í höfuðborginni Beirut og víðar. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Gengisfallið leiddi til þess að lágmarks laun í landinu eru einungis 67,5 Bandaríkjadalir á mánuði, jafnvirði um 8.500 krónur. Gengisfallið hefur leitt til óðaverðbólgu en hagkerfið reiðir sig mjög á innfluttar vörur. Að sama skapi fer störfum fækkandi í landinu og laun fara fremur lækkandi en hækkandi.

Spilling og óstjórn hefur einkennt Líbanon en hagkerfið stóð höllum fæti áður en sprenging varð við höfnina í Beirut þar sem 200 manns dóu og borgin skemmdist mikið.

Landið hefur glímt við pólitíska krísu frá því að sprengingin leiddi til þess að ríkisstjórnin varð frá að hverfa. Pólitískur órói hafði þau áhrif að viðræður um við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um neyðarlán og aðrar áætlanir björgunaraðgerðir runnu út í sandinn. Líbanon gat ekki staðið við erlend lán fyrir ári síðan en innlendir bankar glíma við lausafjárþurrð sem gerir það að verkum að ríkið getur ekki tekið lán.

Samkomutakmarkanir vegna COVID-19 hafa gert stöðuna enn verri en hagkerfið dróst saman um fimmtung í fyrra. Bankakrísa hefur gert það að verkum að viðskiptavinir get ekki nálgast sparnað sinn í Bandaríkjadölum.

Íbúar landsins hafa það skítt. Matvælaverð jókst um 400 prósent á milli ára og Alþjóðabankinn telur að 45 prósent landsmanna sé undir fátæktarmörkum.

Líbanon festi gjaldmiðilinn sinn við Bandaríkjadal árið 1997 í því skyni að koma á efnahagslegum stöðugleika eftir borgarastyrjöld lauk árið 1990. Það jók kaupmátt íbúa landsins en árið 2019 rofnaði tengingin við Bandaríkjadal.