Hlutabréfaverð tölvuleikaframleiðandans Solid Clouds um hádegisbil er nokkuð áþekkt gengi í hlutafárútboði í aðdraganda skráningar á First North-hliðarmarkaðinn í Kauphöllinni. Útboðsgengið var 12,5 krónur á hlut. Við opnun markaða fór gengið í 14 og til skamms tíma í 14,2 og fóru viðskipti fyrir samtals um 7,6 milljónir króna fram á genginu 14 og 14,2. Þegar þetta er ritað hefur gengið lækkað í 12,2 sem er tveimur prósentum lægra en útboðsgengið. Veltan nemur samtals 10,5 milljónum króna við hádegisbil.

„Skráning Solid Clouds er rökrétt og mikilvægt skref fyrir félagið,“ segir Stefán Gunnarsson, forstjóri Solid Clouds. „Leikjaiðnaðurinn er sú grein sem er hvað mest vaxandi á heimsvísu á sviði tæknilegrar afþreyingar og við sjáum því gífurleg tækifæri fram undan á þessu sviði. Við byggjum á velgengni fyrsta leiksins okkar í Starborne seríunni og skráningin styður við metnaðarfull áform okkar um áframhaldandi vöxt og verðmætasköpun. Við bjóðum nýja hluthafa innilega velkomna og hlökkum til að taka þá með í vegferðina okkar.“

„Við erum mjög stolt af því að bjóða Solid Clouds velkomið á Nasdaq First North vaxtarmarkaðinn, sagði Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. „Það er sérlega ánægjulegt að fá fyrsta tölvuleikjafyrirtækið á íslenska markaðinn og eins og sjá má af hlutafjárútboðinu hafa fjárfestar tekið fyrirtækinu opnum örmum.“

Solid Clouds er tölvuleikjafyrirtæki með áherslu á þróun tæknigrunns sem hraðar framleiðslu á fjölspilunarleikjum (e. MMORTS-leikir: Massively Multiplayer Online Real Time Strategy), en stefnan er sett á framleiðslu nýs leiks á þriggja ára fresti. „Viðskiptalíkan Solid Clouds miðar að því að geta aðlagast fljótt breyttri eftirspurn neytenda á markaði, en með sérhæfðri tækni er hægt að fínstilla tölvuleikina til að halda í spilara og hámarka tekjur. Solid Clouds hleypti fyrsta fjölspilunarleiknum sínum, Starborne: Sovereign Space, af stokkunum árið 2020,“ segir í tilkynningu.