Hlutabréfaverð Kviku banka er orðið hærra en verðið sem á var kveðið um í yfirtökutilboði TM. Bréf Kviku banka hafa hækkað um rúmlega 7 prósent frá því að tilboðið var lagt fram og er gengið nú 3 prósentum hærra en tilboðsverðið.

Eins og greint var frá í Markaðinum hafnaði Kvika banki skriflegri beiðni stjórnenda TM undir lok síðasta mánaðar um að hefja formlegar sameiningarviðræður en þær áttu, samkvæmt tillögum TM, meðal annars að grundvallast á þeim skilmálum að tryggingafélagið yrði metið á nokkuð hærra verði en fjárfestingabankinn við mögulegan samruna félaganna. Stjórn Kviku taldi hins vegar engar forsendur til að hefja formlegar viðræður á þeim grunni.

Þá greindi Markaðurinn frá því að TM gerði ráð fyrir að skiptihlutföllin yrðu þannig að hlutafé tryggingafélagsins yrði í kringum 55 prósent í sameinuðu félagi á meðan hlutafé Kviku banka yrði þá á móti liðlega 45 prósent. Miðað við það áttu hlutabréf Kviku að vera metin á 10,2 krónur á hlut og að markaðsvirði bankans væri því talið vera rúmlega 20 milljarðar króna.

Nú stendur gengi Kviku banka í 10,48 eftir rúmlega 7 prósenta hækkun frá því að tilboðið var lagt fram föstudaginn 26. júní en þá stóð verðið í 9,7. Á sama tíma hefur gengið á TM lækkað lítillega, eða úr 34,4 niður í 33,4.