Gengi hlutabréfa í Högum fór yfir 50 krónur á hlut í Kauphöllinni eftir hádegi í dag í fyrsta sinn í tvö og hálft ár. Hlutabréfaverð í smásölurisanum hefur hækkað um liðlega þrjátíu prósent á undanförnum fjórum mánuðum.

Gengi bréfanna fór í 50,1 krónu á hlut um tvöleytið í dag og hefur það ekki verið hærra síðan í byrjun júnímánaðar árið 2017. Gengið lækkaði skarpt sumarið sama ár, í kjölfar þess að bandaríski risinn Costco opnaði sína fyrstu verslun í Kauptúni í Garðabæ, og hefur síðan þá ekki rofið fimmtíu króna múrinn fyrr en nú. Lægst fór gengið í 33,5 krónur á hlut í októbermánuði árið 2017 áður en það tók aftur við sér.

Hlutabréf í Högum hafa verið á miklu flugi undanfarna mánuði, eins og áður var rakið, og þá sérstaklega fyrstu vikur nýs árs en verðhækkun bréfanna nemur alls 14,6 prósentum frá áramótum.