Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur gefið Kviku banka fjögurra daga frest til að rifta fyrirhuguðum kaupum bankans á GAMMA. Hann segist efast um að bankinn hafi ekkert með ákvarðanir Almenna leigufélagsins, sem GAMMA stýrir, að gera en ítrekar frestinn í færslu sem hann birti á Facebook í kvöld.

Sjá einnig: Taka 4 milljarða úr Kviku láti þeir ekki af „grimmd­ar­­verk­um“

„VR er frjálst að færa sína sjóði og kostar það félagið ekki neitt. Ef rétt reynist að Kvika banki hefur ekkert með ákvarðanir Gamma/Almenna að gera, sem ég reyndar efast stórlega um, hefur bankinn sama frest til að rifta fyrirhuguðum kaupum á fyrirtæki sem svífst einskis þegar kemur að siðlausum gróðasjónarmiðum gagnvart almenningi,“ skrifar Ragnar Þór.

Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, sagði bankann myndu brjóta samkeppnislög reyndi hann að hafa áhrif á sjóðsstýringu GAMMA og rekstur þess eftir að VR og Ragnar Þór hótuðu að taka 4,2 milljarða verkalýðsfélagsins úr eignastýringu hjá Kviku.

Sjá einnig: Ármann: „Höfum ekkert með stjórn GAMMA að gera“

„Við erum því ekki eigendur félagsins. Við vonumst auðvitað eftir því að kaupin gangi í gegn en þangað til höfum við ekkert með stjórn GAMMA að gera og okkur óheimilt að hafa áhrif á rekstur og sjóðastýringu félagsins,“ sagði Ármann í samtali við Fréttablaðið. „Það væri brot á samkeppnislögum.“

Ragnar segist hafa gert ráðstafanir um hvert fjármunirnir verði fluttir, komi til þess, „og mun það ekki hafa nokkur áhrif á ávöxtun fjármuna félagsins sé tillit tekið til árangurs bankans síðustu ár,“ segir hann í færslunni.

„Það er varla hægt að lýsa þessu með öðrum orðum en sem grimmd, taumlausri græðgi og mannvonsku,“ sagði í frétt á vef VR þar sem talað er um meintar hótanir Almenna leigufélagsins í garð leigjenda.