Storytel stefnir á að gefa út yfir 400 hljóðbækur á íslensku í ár. Í fyrra gaf fyrirtækið út 346 hljóðbækur á íslensku og árið áður um 250. Þetta segir Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins hér á landi. „Það kemur því meira en ein hljóðbók út á dag frá okkur,“ bendir hann á.

Sænska fyrirtækið Storytel, sem meðal annars var stofnað af Jóni Haukssyni, hóf starfsemi hér á landi við kaup á hljóðbókafyrirtækinu Skynjun árið 2017, sem Stefán hafði átt og rekið frá árinu 2011. „Helsti munurinn á Storytel og Audible, sem er í eigu Amazon, er að við bjóðum upp á innlent efni í 20 löndum,“ segir Stefán.

Næststærst á bókamarkaðnum

Borgar sig að bjóða upp á hljóðbækur á íslensku?

„Já. Starfsemin gefur af sér umtalsverðar tekjur fyrir alla sem koma að málum eins og rétthafa og skapar ýmis afleidd störf. Storytel er skráð á hlutabréfamarkað og því má ég ekki farið of náið í saumana á þeim þætti. Fyrirtækið í heild sinni er ekki enn farið að skila hagnaði en stefnir á að gera það innan þriggja ára en Ísland er einn þeirra markaða sem standa undir sér.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni vorum við með um 18-20 prósent af tekjum bókaútgefenda á síðasta ári. Við erum því líklega næststærst á bókamarkaðnum. Umsvifin eru farin að skipta verulegu máli. Storytel er með tíu starfsmenn hér á landi sem annast fyrst og fremst framleiðslu, markaðssetningu og þjónustu. Því til viðbótar hafa á annað hundrað leikara lesið fyrir okkur hljóðbækur og fjöldi verktaka klippir og prófarkahlustar efni fyrir okkur,“ segir hann.

Samkvæmt tölum frá félagi íslenskra bókaútgefenda drógust tekjur íslenskra bókaforlaga saman í áratug en í fyrra jókst salan um 30 prósent. „Það má rekja vöxtinn til innkomu okkar á markaðinn. Vöxturinn skapar nýjar tekjur fyrir rétthafa. Hljóðbækur taka ekki frá pappírsbókum heldur skapa aukinn áhuga og um fjórðungur okkar viðskiptavina er nýir lesendur, það er fólk sem ekki las bækur áður.“

Stefán segir að frá því að sam­komu­banni var komið á vegna kórónaveirunnar um miðjan mars hafi fjöldi nýskráninga tvöfaldast á hverjum degi. „Hlustunin hefur aukist samhliða fleiri áskrifendum,“ segir hann. Að hans sögn hlusta Íslendingar mun meira á íslenskt efni en erlent.

Þjónusta en ekki verslun

Hvernig skiptið þið tekjunum á milli ykkar og bókaforlaga sem gefa út bækur sem streymt er hjá ykkur?

„Kerfið er ekki einfalt en þó vel gegnsætt. Við bjóðum frían prufuaðgang og okkur þykir mikilvægt að greiða rétthöfum fyrir þá hlustun. Því má segja að um 55-60 prósent teknanna fari til rétthafa. Til samanburðar er álagningin gjarnan um 38-40 prósent hjá hefðbundnum bóksölum. Það verður þó að hafa í huga að okkar viðskiptamódel er ólíkt bóksölum sem hafa skilarétt. Við rekum þjónustuver og markaðssetjum bækur í meiri mæli en bóksalar. Við bjóðum upp á þjónustu en rekum ekki verslun. Þar liggur munurinn.“

Höfuðstöðvarnar stækka markaðsteymið

Með hvaða hætti kynnið þið bækurnar?

„Við nýtum netið í miklum mæli, einkum samfélagsmiðla, og njótum þar aðstoðar frá höfuðstöðvunum sem reka stóra deild í stafrænni markaðssetningu. Á Íslandi starfa þrír við markaðssetningu en vegna aðstoðar frá höfuðstöðvunum er teymið mun fjölmennara.

Það sem skiptir okkur mestu máli í markaðsstarfi er að geta mælt árangurinn; hvaðan viðskiptavinurinn kemur og líftími hans í þjónustunni. Við fylgjumst vel með áskrifendum til að geta bent þeim á áhugavert lesefni. Frá og með maí verða til dæmis allar forsíður í appinu okkar klæðskerasniðnar að hverjum notanda, rétt eins og er hjá Netflix. Ábendingarnar eru einstaklingsmiðaðar og byggja á fyrri notkun.

Sömuleiðis höfum við nýtt sjónvarpsauglýsingar sem hafa reynst vel þegar fólk situr heima vegna kórónaveirunnar. Jafnframt höfum við auglýst á útiskiltum, í útvarpi og víðar. Dagblöð hafa hins vegar ekki hentað okkur.

Markaðsstarfið er farið að skila árangri. Samkvæmt mælingum þekkir fólk vörumerkið okkar æ betur og við skipuðum til að mynda fjórða sætið af íslenskum fyrirtækjum í ánægjukönnun MMR.“

Hlusta á tvær til þrjár bækur á mánuði

Hvað hlusta notendur á margar bækur á mánuði að meðaltali?

„Að meðaltali hlustar hver notandi á tvær til þrjár bækur á mánuði. Meðallengd bóka er um níu klukkustundir. Við erum samt með fjölda notenda sem hlusta mun meira en það og komast yfir tíu til fimmtán bækur á mánuði. Áskrifendur okkar eru oft miklir bókaunnendur.“

Stefán segir að það veki athygli að fjöldi bóka, sem vinsælt sé að gefa sem gjafir, sé ekki endilega á meðal vinsælustu bóka hjá þeim. „Oft eru vinsælustu bækurnar okkar þýddar spennusögur.“

Vaxtarbroddurinn er í Storytel Original

Storytel framleiðir eigið efni á borð við Sönn íslensk sakamál. „Við munum stórauka útgáfu á efni í anda þess í því skyni að breikka áskrifendahópinn. Horft er til þess að framleiða vandað hlaðvarp og hefðbundnar bækur. Vaxtarbroddurinn er í Storytel Original, bókum sem rithöfundar skrifa fyrir okkur og minna á Netflix-sjónvarpsþátt. Hver kafli er um klukkustund og hver bók er með átta til tíu kafla. Hver þeirra endar gjarnan á æsispennandi máta og því þyrstir hlustendur í að halda áfram að hlusta.“

Stefán bendir þó á að hlutfall af eigin efni hjá Storytel sé enn of hátt. „Við myndum gjarnan kjósa að íslenskir útgefendur framleiddu meira efni sjálfir. Það skapar meiri fjölbreytni og þá verður framboðið líkara því sem tíðkast erlendis þar sem stærri útgefendur framleiða hljóðbækur í meiri mæli.“