Orkuveita Reykjavíkur mun ekki veita upplýsingar um þá sem sóttu um starf forstjóra/forstýru fyrirtækisins. Umsóknarfrestur um starfið rann út um helgina.

Breki Logason, stjórnandi samskipta og samfélags hjá Orkuveitu Reykjavíkur segir í svari sínu við fyrirspurn Fréttablaðsins að þótt Orkuveitan sé vissulega sameignarfyrirtæki þá lúti starfsemi OR ekki sömu reglum og opinberar stofnanir.

„Okkur ber því engin skylda til að birta lista yfir umsækjendur,“ segir Breki.

Ekki fást heldur upplýsingar um hve margir sóttu um starfið.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var málið rætt innan stjórnar Orkuveitunnar fyrr á þessu ári. Stjórnarmenn voru sammála um að birta ekki lista yfir umsækjendur þar sem slík birting gæti fælt hæfa stjórnendur frá því að sækja um starfið. Innan stjórnar voru þau sjónarmið metin veigameiri en upplýsingaskylda sem kveðið er á um í eigendasamningi.

Þar segir orðrétt að stjórn skuli upplýsa eigendur um „óvenjuleg eða veigamikil atriði í rekstri þótt þau kalli ekki á ákvörðun af hálfu eigenda."

Þar segir enn fremur að sveitarstjórnarfólk og almenningur eigi ríkan rétt til upplýsinga um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, sagði starfi sínu lausu fyrr á þessu ári og lætur formlega af störfum þann 1. mars næstkomandi.

Orkuveita Reykjavíkur er að öllu leyti í eigu Reykjavíkurborgar, Borgarbyggðar og Akraneskauspstaðar.