Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að það komi ekki til greina að gefa afslátt af launahækkunum sem taka gildi samkvæmt lífskjarasamningnum næstu mánaðamót. Óformleg samtöl hafa átt sér stað milli verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins.

„Ég get sagt mjög afdráttarlaust að það verða engar breytingar á þessum samningi,“ segir Ragnar í samtali við Fréttablaðið.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, skrifaði í grein sem birtist í Markaðinum í gær að slá ætti á frest fyrirhuguðum launahækkunum. Að óbreyttu myndi launakostnaður hækka um tugi milljarða króna á ársgrundvelli og íslensk fyrirtæki hefðu ekki efni á frekari hækkunum í núverandi árferði.

Ragnar bendir meðal annars á að efnahagslegar aðgerðir stjórnvalda til að bregðast við heimsfaraldri COVID-19 snúist að mestu leyti um hagsmuni fyrirtækja. Hann nefnir lækkun bindiskyldu, ríkisábyrgð á sérstökum brúarlánum og greiðslufresti í tengslum við opinber gjöld og fyrirtækjalán.

„Við munum beita okkur harkalega fyrir því að fyrirtæki, sem skorast undan því að greiða umsamdar hækkanir eða láta á það reyna að brjóta samninga með einhverjum hætti, verði algjörlega undanskilin þeim úrræðum sem boði eru hjá lífeyrissjóðum og við munum krefjast þess að undanskilja slík fyrirtæki frá öðrum úrræðum stjórnvalda,“ segir Ragnar.

Aðspurður svarar Ragnar Þór að engar formlegar viðræður hafi átt sér stað milli Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar um fyrirhugaðar launahækkanir heldur einungis óformleg samtöl.

„Við vorum tilbúin að ræða aðrar leiðir til að lækka kostnað fyrirtækja en settum skilyrði um frystingu vísitölu á verðtryggðum lánum. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum var það ekki til umræðu. Þetta gerir það að verkum að við erum algjörlega föst fyrir. Það kemur ekki til greina að gefa krónu í afslátt af þessum hækkunum,“ segir Ragnar.