Garðar Óli Ágústsson og Margrét Stefánsdóttir hafa verið ráðin til Vinnvinn en ráðningarþjónustan Vinnvinn fagnar um þessar mundir tveggja ára afmæli sínu.
,,Samkeppni um hæft starfsfólk hefur aldrei verið meiri og ljóst að eftirspurn vinnumarkaðarins eftir vönduðum ráðningum og faglegu ráðningaferli er að aukast í því síbreytilega umhverfi sem atvinnulífið stendur frammi fyrir. Má þar nefna sjálfvirknivæðingu, sjálfbærni, kynslóðaskipti á vinnumarkaði og frekari tækifæri til vaxtar. Með fjölgun ráðgjafa hjá Vinnvinn mætum við þessari eftirspurn en sérhæfing Vinnvinn felur meðal annars í sér stjórnenda- og sérfræðiráðningar og ráðningar fyrir hið opinbera,“ segir Jensína K. Böðvarsdóttir framkvæmdastjóri Vinnvinn.
Garðar Óli er með B.Sc. gráðu í íþróttafræði frá Háskólanum í Reykjavík og útskrifaðist með meistaragráðu í rekstri og stjórnun íþróttafélaga frá Molde University í Noregi árið 2021. Meistaraverkefni Garðars fól í sér úttekt á stjórnunarháttum íþróttasambanda á Íslandi en áður starfaði Garðar við rannsóknarvinnu og gagnagreiningu hjá Háskólanum í Reykjavík og við verkefnastjórn og markaðssetningu hjá Ungmennafélaginu Fjölni.
Margrét Stefánsdóttir er með BA gráðu í mannfræði frá Háskóla Íslands og útskrifaðist með meistaragráðu í International Relations frá Nottingham University í Englandi árið 2009. Margrét starfaði áður sem mannauðs- og gæðastjóri menningar- og viðskiptaráðuneytis en þar áður sem mannauðs- og gæðastjóri hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Þá starfaði Margrét áður sem Quality Agreement Specialist hjá Actavis.