Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2023 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í gær og voru áætlanir fyrir árin 2024, 2025 og 2026 jafnframt lagðar fram.
Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir að fjárhagsáætlun bæjarins leggi áherslu á ábyrgan rekstur og sterka fjárhagsstöðu annars vegar og framsækna uppbyggingu þjónustu og innviða hins vegar.
„Staðan hefur verið góð í Garðabæ og við búum við fjárhagslegt svigrúm til að sækja fram og fjárfesta í mannauði og mannvirkjum. Bæjarbúar eiga von á því að njóta áfram góðrar þjónustu um leið og álögum er haldið í lágmarki,“ segir Almar.
Í fjárhagsáætluninni er áhersla lögð á endurbætur á húsnæði og lóðum sveitarfélagsins. Framlög til endurbóta skólahúsnæðis, íþróttamannvirkja og skólalóða verða einnig þrefölduð milli ára. Framkvæmdir munu halda áfram svo sem uppbygging 2. áfanga Urriðaholtsskóla og byggingu nýs leikskóla við Holtsveg í Urriðaholti.
Fasteignagjöld á íbúa koma til með að lækka í 0,166 prósent og munu vatns- og holræsagjöld einna lækka á árinu 2023. Gjaldskrá bæjarins hækkar um 7 prósent og útsvar helst óbreytt í 13,7 prósent. Framlög til sumarfrístundar barna verða stóraukin og lögð verður áhersla á forvarnir í starfi félagsmiðstöðva. Einnig verður settur á laggirnar sérstakur þróunarsjóður fyrir skapandi greinar.
Áætlunin verður kynnt á opnum fundi 6. desember nk. og verður fundurinn einnig í streymi á vefsíðu Garðabæjar.