Þrátt fyrir að stjórnendur Icelandair Group hafi samið við stóran hluta flugstétta félagsins um allt að 25 prósenta kostnaðarhagræðingu er hætt við því að flugfélagið verði eftir sem áður ekki að fullu samkeppnishæft við keppinauta sína þegar kemur að launakostnaði, að mati sérfræðinga og hluthafa sem Markaðurinn ræddi við.

Forsvarsmenn British Airways áforma sem dæmi að segja upp meirihluta starfsfólks félagsins til þess að geta ráðið það aftur á umtalsvert – allt að helmingi – lakari kjörum, að sögn breska stéttarfélagsins Unite.

Viðmælendur Markaðarins úr hópi stærstu hluthafa Icelandair Group segjast hafa áhyggjur af því að samkeppnishæfni flugfélagsins verði áfram lakari en hjá helstu keppinautum félagsins, þrátt fyrir þá hagræðingu sem þegar hefur náðst í nýjum kjarasamningum þess við flugmenn og flugvirkja.

Er í því sambandi vísað til þess að svo virðist sem sumir keppinautanna, þar á meðal British Airways og Lufthansa, muni ganga enn lengra í hagræðingu á launakjörum starfsfólks.

Auk mikilla fjöldauppsagna, þeirra mestu í fluggeiranum á síðari árum, hafa stjórnendur flugfélaga heims reynt hvað þeir geta á síðustu vikum og mánuðum til þess að endursemja við starfsfólk um tugprósenta launalækkanir, minnkun starfshlutfalls eða launalaust leyfi, í því skyni að draga verulega úr kostnaði.

Forsvarsmenn Icelandair Group sömdu sem kunnugt er við flugmenn og flugvirkja fyrr í mánuðinum til fimm ára, en kjarasamningarnir fela einkum í sér aukið vinnuframlag af hálfu stéttanna. Þannig kom fram í erindi forstjórans Boga Nils Bogasonar á hluthafafundi félagsins síðasta föstudag, að flugtímum flugmanna yrði fjölgað um meira en fimmtung – úr 525 í allt að 640 á ári – þannig að þeir yrðu í samræmi við það sem gengur og gerist á meðal sambærilegra flugfélaga. Auk þess yrðu laun þeirra fryst til þriggja ára.

Er gert ráð fyrir að samningurinn skili sér í alls fjórðungslækkun á einingakostnaði flugmanna félagsins.

Kjaraviðræður Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands eru, sem fyrr, í hnút.

Ræður mestu um framtíðina

Eins og greint hefur verið frá í Markaðinum er samkeppnisstaða Icelandair gagnvart helstu keppinautum sínum, þá meðal annars einingakostnaður flugfélagsins, eitt af þeim atriðum sem stærstu lífeyrissjóðir í hluthafahópi félagsins skoða, ásamt ráðgjöfum sínum, fyrir fyrirhugað hlutafjár­útboð þess í næsta mánuði.

Tekið var fram í nýlegu verðmati Capacent að launakostnaður flugfélagsins réði mestu um framtíð þess.

Úlfar Steindórsson stjórnarformaður og Bogi Nils Bogason forstjóri á hluthafafundi Icelandair Group í síðustu viku.
Fréttablaðið/Valli

Einn viðmælenda Markaðarins bendir á að þrátt fyrir nýja kjarasamninga við flugstéttir sé útlit fyrir að einingakostnaður Iceland­air verði áfram hár í alþjóðlegum samanburði. Önnur flugfélög, með lægri kostnaðargrunn, hafi einnig gengið langt og jafnvel enn lengra í hagræðingu launa til þess að bregðast við áhrifum kórónaveirunnar.

Flugfélög þurfi nauðsynlega að leita allra leiða til þess að draga úr kostnaði til þess að geta lagað sig að breyttri heimsmynd. Þau muni til framtíðar litið þurfa að reka sig á lægri kostnaðargrunni en áður.

„Félagið verður áfram ósamkeppnishæft í launum á meðan það er íslenskt félag. Það gefur augaleið,“ nefnir annar greinandi um samkeppnishæfni Icelandair.

Ekki sé þar með sagt að flugfélagið geti ekki staðist samkeppnina á flugmarkaði. Félagið geti nýtt sér aðra þætti sér í hag. Það bjóði til að mynda upp á eftirsóknarverða tengimöguleika í leiðakerfi sínu á Keflavíkurflugvelli.

Jafnframt þurfi að hafa í huga að arðbærustu flugfélög heims séu ekki þau sem greiði lægstu launin. „Almenn skynsemi“ þurfi að ráða för í kjarasamningum.

Buðu 45 prósenta lækkun

Viðbrögð flugfélaga við heimsfaraldrinum hafa falist að miklu leyti í tímabundnum neyðaraðgerðum sem hafa einkum miðað að því að stöðva útflæði lausafjár. Hins vegar er ljóst að þau munu þurfa að endurskipuleggja rekstur sinn til framtíðar og semja að nýju við starfsfólk á verri kjörum.

Fyrrnefndar aðgerðir British Airways felast til að mynda í því, að sögn stéttarfélagsins Unite, að stórum hluta starfsfólks verður sagt upp og hann ráðinn aftur á allt að helmingi lægri launum. Stjórnendur flugfélagsins hafa áður sagst íhuga að segja upp nærri tólf þúsund manns.

„Við munum ekki láta það líðast að British Airways notfæri sér krísuna til þess að hrinda í framkvæmd áætlun um að skera niður störf, lækka laun og skerða réttindi,“ er haft eftir Len McCluskey, framkvæmdastjóra Unite, í breskum fjölmiðlum.

Fleiri flugfélög skoða einnig sársaukafullar aðgerðir af svipuðu tagi. Stjórnendur írska lággjaldaflugfélagsins Ryanair hafa til dæmis í hyggju að segja upp fimmtán prósent af starfsfólki félagsins og lækka laun þeirra sem eftir verða um fimmtung.

Þá hafa forsvarsmenn SAS beðið starfsfólk um að taka á sig tuttugu prósenta launalækkun. Flugmenn hjá Lufthansa buðust enn fremur, að fyrra bragði, til þess að gefa eftir 45 prósent af launakjörum sínum til næstu tveggja ára.